Dagur fyrsti Íslendingurinn

Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. AFP/Jonathan Nackstrand

Dagur Sigurðsson varð í gærkvöldi fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna sem þjálfari á HM karla í handbolta.

Dagur er þjálfari Króatíu, sem tapaði 26:32 fyrir Danmörku í úrslitaleik og vann þar með til silfurverðlauna.

Áður hafði hann stýrt Þýskalandi til sigurs á EM 2016 og svo unnið til bronsverðlauna með liðið á Ólympíuleikunum síðar sama ár.

Guðmundur Þórður Guðmundsson stýrði Íslandi til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum árið 2008 og bronsverðlauna á EM 2010. Hann vann svo til gullverðlauna á Ólympíuleikunum 2016 með liði Danmerkur en hefur ekki unnið til verðlauna á heimsmeistaramóti.

Eini íslenski þjálfarinn sem hefur áður unnið til verðlauna á heimsmeistaramóti í handbolta er Þórir Hergeirsson með kvennalið Noregs. Varð hann þrisvar heimsmeistari með liðið, vann tvisvar til silfurverðlauna og einu sinni til bronsverðlauna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert