Íslenska karlalandsliðið í handbolta fellur niður um eitt sæti á nýjum styrkleikalista EHF, Handknattleikssambands Evrópu, eftir HM sem lauk á sunnudag.
Ísland hafnaði í níunda sæti á heimsmeistaramótinu og fellur einmitt niður í níunda sæti styrkleikalistans, úr því áttunda.
Ástæða þess er að Króatía, sem Dagur Sigurðsson þjálfar, fer úr níunda sæti og upp í það fimmta. Króatía endaði í öðru sæti á HM.
Danmörk, sem vann sitt fjórða heimsmeistaramót í röð, er í toppsæti listans sem fyrr. Frakkland er í öðru sæti og Þýskaland, sem Alfreð Gíslason þjálfar, er í þriðja sæti.