Grátlegt tap Íslands eftir endurkomu

Kristófer Breki Björgvinsson skoraði 18 stig fyrir Ísland.
Kristófer Breki Björgvinsson skoraði 18 stig fyrir Ísland. Ljósmynd/KKÍ

Íslenska U18 ára landslið karla tapaði naumlega fyrir Eistlandi, 81:79, í fyrsta leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð í dag. 

Leikurinn var sá fyrsti af fimm hjá íslenska liðinu en á morgun mætir Ísland Danmörku. 

Eistneska liðið var mun betra í fyrri hálfleik og var yfir með 18 stigum, 51:33, er liðin gengu til búningsklefa. 

Í seinni hálfleik kom Ísland sér inn í leikinn og var munurinn sex stig, 59:53, Eistlandi í vil fyrir fjórða leikhluta. 

Ísland minnkaði muninn í eitt stig þegar að mínúta var eftir, 73:72, og komst yfir, 77:76, þegar að nítján sekúndur voru eftir. 

Íslenska liðið fór hins vegar illa að ráði sínu undir lok leiks og tapaði að lokum með tveimur stigum. 

Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 20 stig, tók sex fráköst og stal tveimur boltum. Kristófer Breki Björgvinsson skoraði þá 18 stig, tók fjögur fráköst og stal fjórum boltum. 

Arnór Tristan Helgason var ekki með íslenska liðinu í dag. Samkvæmt heimildum Körfunnar meiddist hann á dögunum og er óvíst hvenær hann snýr aftur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert