Fólk veit ekki hvað var í gangi innan frá

Margrét Ósk Einarsdóttir aðstoðarþjálfari og Jamil Abiad.
Margrét Ósk Einarsdóttir aðstoðarþjálfari og Jamil Abiad. Ljósmynd/Valur

Kanadamaðurinn Jamil Abiad var í maí ráðinn þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik. Abiad hefur verið aðstoðarþjálfari Finns Freys Stefánssonar hjá karlaliði Vals undanfarin tvö tímabil og samhliða því þjálfað yngri flokka og sinnt einstaklingsþjálfun á öllum aldri innan félagsins.  

„Ég er virkilega spenntur. Þetta er nýtt tækifæri og ég er spenntur fyrir því sem er fram undan. Það verður mikið um hæðir og lægðir í gegnum tímabilið en ég hlakka til að vaxa sem persóna.   

Ég hlakka líka til að reyna að hjálpa þessum stelpum að komast vonandi á það stig sem þær vilja spila á og koma Val aftur á þann stað að vinna Íslandsmeistaratitilinn,” sagði Abiad, sem er 34 ára gamall, um nýja starfið.  

Ásamt því að þjálfa kvennaliðið mun hann halda áfram sem aðstoðarþjálfari karlaliðsins og sinna einstaklingsþjálfun hjá Val.   

Eftir að kvennaliðið stóð uppi sem Íslandsmeistari árið 2023 var síðasta tímabil mikil vonbrigði. Valur var í neðri hluta úrvalsdeildarinnar, vann neðri hlutann en féll svo úr leik í úrslitakeppninni strax í átta liða úrslitum gegn Njarðvík.

Abiad ræðir við Taiwo Badmus í leik karlaliðsins á síðasta …
Abiad ræðir við Taiwo Badmus í leik karlaliðsins á síðasta tímabili. Ljósmynd/Aðsend

Erfitt að ná fram stöðugleika

Spurður hvað hann teldi að þyrfti að laga hjá liðinu fyrir næsta tímabil sagði Abiad 

„Margt fólk sem skoðar hlutina utan frá veit ekki hvað var í gangi innan frá. Liðið glímdi við mikið af meiðslum, sem hefur auðvitað mikið að segja, sérstaklega þegar um nokkra af lykilleikmönnum þínum er að ræða.  

Svo komu til aðstæðurnar með erlendu leikmennina, þeim tókst ekki að festa þá í sessi á tímabilinu. Svo þegar þau náðu í erlendan leikmann var hann meiddur. Það var mikið um breytingar. Jafnvægið í leikmannahópnum beið hnekki þegar liðið missti leikmenn á miðju tímabili.  

Það er erfitt að ná fram stöðugleika þegar svo er. Þegar næsta tímabil byrjar verðum við vonandi komin með megnið af kjarnanum aftur. Við erum að horfa til þess að bæta við nokkrum leikmönnum og vonandi haldast allir heilir.

Abiad við störf sem aðstoðarþjálfari karlaliðsins.
Abiad við störf sem aðstoðarþjálfari karlaliðsins. Ljósmynd/Aðsend

Ég held að það sé einn mikilvægasti þátturinn í íþróttum. Lið sem er við sem besta heilsu á vanalega betri möguleika. Svo þurfum við að huga vel að þeim hlutum sem við getum stjórnað.  

Taka vel á því í ræktinni, sinna aukaæfingum, næring. Það skiptir allt saman máli. Meiðslum getum við ekki stjórnað, slíkt gerist í íþróttum. Mín helsta ósk fyrir þetta tímabil er að leikmenn séu við góða heilsu. Sé það fyrir hendi þá kemur allt hitt með; liðsæfingar og annað sem þú reynir að koma á framfæri.”  

Valsliðið er þegar farið að huga að því að styrkja sig fyrir næsta tímabil og bindur Abiad vonir við að einn til tveir bætist við.  

„Við vonumst til þess að semja við einn íslenskan leikmann til viðbótar en svo erum við einnig að leitast við að bæta við einum Bosman-leikmanni. Við vonumst til þess að bæta við einum eða tveimur lykilleikmönnum til þess að styrkja hópinn,“ sagði Abiad 

Viðtalið við Jamil Abiad má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert