Sterkur sigur á Eistum

Hulda María Agnarsdóttir í leik með Njarðvík á síðasta tímabili.
Hulda María Agnarsdóttir í leik með Njarðvík á síðasta tímabili. mbl.is/Óttar Geirsson

Íslenska stúlknalandsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 16 ára og yngri vann í dag sterkan sigur á Eistlandi, 92:80, þegar liðin áttust við á Norðurlandamótinu í Kisakallio í Finnlandi.

Ísland hefur nú unnið tvo leiki og tapað einum á mótinu og mætir næst Danmörku á sunnudaginn. Liðið vann sannfærandi sigur á Noregi í fyrsta leik, tapaði svo naumlega fyrir Svíþjóð í gær og vann 12 stiga sigur í dag.

Hulda María Agnarsdóttir átti sannkallaðan stórleik fyrir Ísland þegar hún skoraði 31 stig, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Þar af skoraði hún 25 stig í fyrri hálfleik.

Rebekka Rut Steingrímsdóttir bætti við 12 stigum, tíu fráköstum og sjö stoðsendingum.

Fjórtán stigum yfir í hálfleik

Í leik dagsins var íslenska liðið við stjórn stóran hluta hans. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og staðan að honum loknum 26:22, Íslandi í vil.

Þá gáfu íslensku stúlkurnar í og voru komnar 14 stigum yfir, 52:38, þegar flautað var til hálfleiks.

Eistland mætti til síðari hálfleiksins af miklum krafti og náði þegar best lét að minnka muninn niður í fjögur stig. Munurinn að loknum þriðja leikhluta var hins vegar sjö stig, 74:67.

Í fjórða leikhluta náði Ísland aftur vopnum sínum og vann að lokum góðan sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert