Sterkur sigur á Norðmönnum

Drengjalandslið Íslands.
Drengjalandslið Íslands. Ljósmynd/KKÍ

Íslenska U18 ára landslið drengja vann í dag lokaleik liðsins á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð.

Ísland mætti Noregi og vann með minnsta mun, 86:85, en þetta var fyrsti sigur strákanna á mótinu í fjórum leikjum. Noregur vann þrjá leiki og hafði fyrir leikinn gegn Íslandi aðeins tapað gegn Finnlandi.

Norðmenn voru með sex stiga forskot eftir fyrsta leikhluta sem endaði 28:22. Íslensku strákarnir komu sterkir inn í annan leikhluta og komust yfir eftir aðeins þrjár mínútur og í hálfleik var liðið fimm stigum yfir, 49:44.

Liðin skiptust á að leiða í þriðja leikhlutanum en Ísland var yfir, 71:69, þegar honum lauk og eftir góða frammistöðu í fjórða leikhluta vann liðið með einu stigi, 86:85.

Thor Grissom var atkvæðamestur í íslenska liðinu með 14 stig,  Lars Erik Bragason skoraði níu stig og tók átta fráköst og  Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði tíu stig og tók fjögur fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert