Sigruðu Búlgara með góðum endaspretti

Íslensku stúlkurnar fyrir leikinn í dag.
Íslensku stúlkurnar fyrir leikinn í dag. Ljósmynd/FIBA

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik, 20 ára og yngri, tryggði sér í dag sæti í átta liða úrslitum B-deildar Evrópumótsins í Búlgaríu með því að sigra Búlgara, 71:61, í lokaumferð riðlakeppninnar.

Úkraína vann Austurríki, 70:51, og fékk sex stig, Ísland fékk fjögur stig, Búlgaría tvö og Austurríki ekkert.

Úkraína og Ísland fara í átta liða úrslitin en Búlgaría og Austurríki í keppni um sæti níu til sextán.

Leikurinn í dag var jafn lengi vel. Staðan í hálfleik var 38:33, Íslandi í hag en Búlgarar komust yfir í byrjun fjórða leikhluta með því að skora fimm fyrstu stig hans, 54:53. En eftir að staðan var jöfn, 59:59, skoraði íslenska liðið níu stig í röð og það gerði gæfumuninn.

Jana Falsdóttir og Agnes María Svansdóttir skoruðu 16 stig hvor, Eva Elíasdóttir 13 og Sara Boama 10 en Sara tók auk þess sjö fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert