Sterkur sigur Grindavíkur á Val

Katarzyna Trzeciak með boltann í kvöld.
Katarzyna Trzeciak með boltann í kvöld. Eyþór Árnason

Grindavík vann góðan sigur á Val, 67:61, þegar liðin áttust við í annarri umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

Grindvíkingar byrjuðu af krafti og leiddu með átta stigum, 21:13, að loknum fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta vann Valur sig ögn betur inn í leikinn en Grindavík var enn með forystu, 34:29, í hálfleik.

Í síðari hálfleik hélt Grindavík ágætis dampi og var sjö stigum yfir, 52:45, að loknum þriðja leikhluta.

Valskonur mættu hins vegar dýrvitlausar til leiks í fjórða og síðasta leikhluta, skoruðu fyrstu sex stig leikhlutans og voru þannig skyndilega búnar að minnka muninn niður í aðeins eitt stig, 52:51.

Það sem eftir lifði leiks var allt í járnum en að lokum reyndist Grindavík hlutskarpara og vann með sex stigum.

Alexis Morris var stigahæst í leiknum með 23 stig fyrir Grindavík. Hún tók auk þess sex fráköst og stal fjórum boltum. Katarzyna Trzeciak bætti við 18 stigum.

Hjá Val var Ásta Júlía Grímsdóttir stigahæst með 17 stig og níu fráköst auk þess sem hún stal boltanum tvisvar sinnum.

Jutoreyia Willis kom næst með 15 stig, sjö fráköst og tvo stolna bolta. Alyssa Cerino var með 13 stig og sex fráköst.

Grindavík - Valur 67:61

Smárinn, Bónus deild kvenna, 08. október 2024.

Gangur leiksins: 10:4, 14:7, 16:10, 21:13, 26:18, 29:26, 29:26, 34:29, 38:30, 40:35, 47:37, 52:43, 52:49, 56:52, 61:58, 67:61.

Grindavík: Alexis Morris 23/6 fráköst, Katarzyna Anna Trzeciak 18/4 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir 9/4 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 7/7 fráköst, Ragnheiður Björk Einarsdóttir 3, Sofie Tryggedsson Preetzmann 3, Sóllilja Bjarnadóttir 2, Isabella Ósk Sigurðardóttir 2/11 fráköst/3 varin skot.

Fráköst: 28 í vörn, 13 í sókn.

Valur: Ásta Júlía Grímsdóttir 17/9 fráköst, Jutoreyia Tyelle Willis 15/7 fráköst, Alyssa Marie Cerino 13/6 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 6, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir 4, Sara Líf Boama 4/6 fráköst, Eydís Eva Þórisdóttir 2.

Fráköst: 21 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Jón Þór Eyþórsson, Ingi Björn Jónsson.

Áhorfendur: 159.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert