Tony Parker reyndi að fá Martin

Tony Parker var illviðráðanlegur á sínum tíma.
Tony Parker var illviðráðanlegur á sínum tíma. AFP

Tony Parker, einn frægasti körfuknattleiksmaður sem komið hefur frá Evrópu, er hrifinn af leikstíl íslenska landsliðsmannsins Martins Hermannssonar. 

Martin segir frá því í skemmtilegu myndskeiði að Parker hafi reynt að fá sig til franska liðsins Lyon-Villeurbanne árið 2018 en þá ákvað Martin að ganga til liðs við Alba Berlín (í fyrra skiptið). 

Martin segir að Parker hafi sagst vera hrifinn af honum sem leikmanni og hafi haft samband nokkrum sinnum í þeirri von að fá Martin til félagsins. 

Þegar Tony Parker var enn leikmaður San Antonio Spurs í NBA-deildinni eignaðist hann 20% hlut í félaginu sem einnig er þekkt undir nafninu Asvel. Síðar varð Parker meira innvinklaður í starfsemi körfuboltaliðs félagsins. 

Martin Hermannsson er vel kynntur í körfuboltanum í Evrópu.
Martin Hermannsson er vel kynntur í körfuboltanum í Evrópu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástæða þess að Martin færði þetta í tal er sú að í myndskeiði hjá dynbasketball er hann spurður um hver sé frægasti einstaklingur sem hann sé með í símaskránni. 

Martin lék á dögunum gegn franska liðinu Lyon-Villeurbanne í Evrópuleik í Euroleague, sterkustu Evrópukeppninni, og fór illa með Frakkana. 

Tony Parker varð fjórum sinnum NBA meistari á árunum 2003 til 2014 og Evrópumeistari með Frökkum 2013. Var hann valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í NBA árið 2007. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert