Montrétturinn er Njarðvíkinga

Rúnar Ingi Erlingsson.
Rúnar Ingi Erlingsson. Eggert Jóhannesson

Njarðvík vann hádramatískan sigur á Keflavík, 89:88, í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í Keflavík í gær.

Keflvíkingar virtust ætla að landa sigrinum þegar þeir náðu mest 17 stiga forskoti í þriðja leikhluta en lið Njarðvíkur neitaði að gefast upp og vann að lokum sætan sigur gegn nágrönnum sínum.

Njarðvík er þar með komin með fjögur stig eftir þrjár umferðir en Keflvíkingar eru með tvö.

Þá brotnaði liðið

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum lukkulegur með sigurinn og hafði þetta að segja spurður út í leikinn í gær.

„Við eigum alveg langt í land en við erum að stíga stórt skref sem lið í töffaraskap og andlegum styrk.

Ég er svolítið búinn að tala um það við strákana að það sem mér fannst vera veikleiki í fyrra var að þegar við fengum á okkur áhlaup, jafnvel þegar við vorum yfir að þá brotnaði liðið.

Það sást í augum leikmanna leik 5 í úrslitakeppninni í vor að þeir voru búnir að tapa þeim leik þegar höggið kom að liðið brotnaði bara. Það er veikleiki sem að góð lið búa ekki yfir að brotna við mótlæti.

Við erum búnir að tala mikið um það hvað við viljum gera, hvernig við viljum bregðast við og hvað við viljum standa fyrir. Þetta var ekki fullkomið en nægilega mikið í dag þar sem okkur tókst að breyta momentinu yfir á okkar hlið og stjórna körfuboltanum inni á vellinum."

Keflavík er Keflavík í Keflavík

Leikur Njarðvíkur var samt mjög sveiflukenndur í kvöld. Liðið var ítrekað að koma til baka og vinna upp forskot en síðan kom slæmur kafli og allt virtist á leiðinni í vaskinn aftur. Hvað veldur því?

„Partur af því er hvaða 5 manna línu ég er með inni á vellinum hverju sinni. Síðan líka það sem er að stjórna hugsun leikmanna inni á vellinum og hvað þeir framkvæma út frá því.

Við vitum alveg hvað Keflavík er í Keflavík. Þeir eru lið sem vilja gera alvöru áhlaup, skora 10 stig í röð og kveikja í stúkunni sinni. Það er alveg erfitt að lenda í því og ég hef alveg séð Njarðvíkur lið lenda í því og brotna saman. Við viljum ekki vera að bregðast við svona áhlaupum með hetjuskotum eða einstaklingsframtaki.

Á þessum augnablikum sem þú ert að tala um þá fannst mér við alltaf vera að drippla of mikið, vorum ekki að finna leikmenn í þeim stöðum þar sem þeir eru bestir og geta gert árásir á körfuna. Sem dæmi Milka upp á 3 stiga línunni, Shabazz að drippa honum alltof mikið. Þetta er eitthvað sem ég vill útrýma úr okkar körfuboltastíl.

Aftur við erum ekki alveg komnir þangað og eigum fullt af vinnu eftir en það sem skiptir máli er að í fjórða leikhluta stjórnuðum við alveg tempóinu, bjuggum til tveggja manna leik sem virkaði á kantinum og dreifðum boltanum sem lið. Það er það sem mun skila okkur árangri í vetur."

Á ákveðnum tímapunkti í seinni hálfleik voru komin aðeins tvö stig af bekknum. Er það áhyggjuefni?

„Staðreyndin er að við erum þunnir. Við erum að hlaupa á átta. Ég ákvað í erfiðri stöðu á erfiðum útivelli að hafa Brynjar á bekknum allan seinni hálfleikinn.

Það er ákvörðun sem ég tók í ljósi þess að hann er 19 ára og mun fá fullt af tækifærum og ég vildi ekki setja hann í erfiða stöðu. Isaiah Coddon var frábær varnarlega og svo kom bónus frá honum með þessum stigum. Snjólfur er annar leikmaður sem ég treysti fullkomlega í svona alvöru baráttur.

Við þurfum samt að bæta við okkur einum leikmanni til þess að einfalda róteringar og dreifa álagi betur. Vonandi eru 30 plús leikir eftir hjá okkur á þessu tímabili."

Finna það sem virkar

Stigaskorið í kvöld var mun dreifðara en í síðasta leik. Það hlýtur að vera jákvætt?

„Já klárlega. Ég hef svo sem engar áhyggjur af því. Ég vill spila skynsaman körfubolta, finna það sem virkar og halda áfram að gera það. Ég var ítrekað að kalla ef við gerðum einhverjar fléttur sem virkuðu að gera það aftur. Ef það endar á því að Dwayne og Shabazz skora 70 stig þá er mér alveg sama á meðan við vinnum.

Í dag var mikil boltapressa á þeim tveimur og við náðum að losa boltann á réttum tímapunktum og búa til önnur skot. Alltaf þegar þeir voru að þröngva skotunum þá náði Keflavík áhlaupi. Ég bað þá um að hætta að horfa á stigaskorið og reyna þvinga fram stigum því þeir munu alltaf fá nóg af skotfærum."

Montrétturinn er hjá Njarðvíkingum eftir þennan leik ekki satt?

„Montétturinn er Njarðvíkinga, loksins. Þetta skiptir máli. Ég mæti í vinnuna á morgun og aftur á mánudag og mér líður aðeins betur og bringan er aðeins meira upp. Þetta er akkúrat ástæðtan fyrir því að maður er í þessu. Ég er jafn sveittur og leikmennirnir. Þetta var virkilega skemmtilegt.

Ég þekki mikið af Keflvíkingum og þetta gefur manni extra að vinna þennan leik. Ég er búinn að tala um þetta í heila viku að við ætluðum að mæta hérna og vinna ásamt því að gefa okkar áhorfendum sigur eftir að þurft að horfa upp á einhver 20 töp fyrir Keflavík í fyrra," sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert