Góður leikur Njarðvíkingsins dugði ekki til

Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti góðan leik fyrir gríska liðið Maroussi þegar það tapaði fyrir belgíska liðinu Spirou Charleroi, 79:69, í Evrópubikar FIBA í Charleroi í Belgíu í kvöld.

Maroussi er með fjögur stig eftir þrjá leiki og Spirou er á toppnum með fullt hús stiga, sex, í G-riðli.

Elvar Már var á meðal stigahæstu manna þegar hann skoraði 12 stig, tók fjögur fráköst og gaf sjö stoðsendingar á rúmum 28 mínútum hjá Maroussi í kvöld.

Tveir stigahæstu leikmennirnir í kvöld, einn hjá Spirou og annar hjá Maroussi, voru með 13 stig hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert