Veggurinn er ótrúlegur í bestu höllinni

Nýja höllin, Intuit Dome, í Inglewood-hverfinu í Los Angeles.
Nýja höllin, Intuit Dome, í Inglewood-hverfinu í Los Angeles. AFP/Harry How

Ég heimsótti nýju íþróttahöll körfuboltaliðsins Los Angeles Clippers á miðvikudag í opnunarleik liðsins gegn Phoenix Suns þar sem ég var forvitinn að sjá hvað tveir milljarðar dala geta byggt í dag hér í borg.

Í þau fjörutíu ár sem ég hef farið á íþróttaviðburði hér vestra fyrir Morgunblaðið, hef ég ávallt haft áhuga á ekki aðeins íþróttaviðburðunum sjálfum, heldur og arkitektúr staðanna sjálfra. 

Það hefur til að mynda verið athyglisvert að fylgjast með hvað byggingarlist íþróttamannvirkja hefur breyst á þessum tíma. Þessi mannvirki eru ávallt að verða margbrotnari í stíl og tæknilegri í umgjörð, sérstaklega hvað varðar myndskjá og nettengingar.

Þessi nýja Clippers-höll á sér langan aðdraganda. Í fjóra áratugi hefur liðið staðið í skugganum af Lakers hér í borg – þar á meðal verið auka „leigjandi“ í fimmtán ár í íþróttahöll USC-háskólans og síðan síðustu 25 árin sem annars flokks lið í Staples Center-höllinni hér í miðbænum. Þar hafa bæði Lakers og íshokkíliðið LA Kings valið sína leikdaga í höllinni áður en að Clippers hafði aðgang að dagsetningum.

Þegar núverandi eigandi Clippers, Steve Balmer, einn af ríkustu einstaklingum í heiminum (Microsoft-auður), keypti liðið fyrir áratug síðan var hann hæstánægður að geta einbeitt sér að liðinu sjálfu og ekki þurfa að eiga við fasteignamál.

Það breyttist hins vegar smám saman og á endanum ákvað hann að liðið þyrfti sína eigin höll. Ólíkt flestum eigendum atvinnuliða hér vestra, ákvað Balmer að fjárfesta með eigin peningum í höllinni, en í flestum tilfellum fá þessir eigendur atvinnuliða skattpening almennings til að borga stóran hluta af byggingarkosnaðinum – hlutur sem nú hefur orðið umdeildur hér vestra.

Reyndar átti Balmer lítinn kost hér, þar sem Los Angeles og nærliggjandi borgir – ólíkt flestum öðrum borgum hér vestra - hafa einfaldlega neitað að nota skattpeninga til að byggja nýjar hallir og leikvanga fyrir eigendur atvinnuliða.

Af þeim sökum hafa eigendur allra atvinnuliðanna hér í borg (Galaxy, LAFC, Clippers, Lakers, Chargers og Rams) greitt fyrir hallir og leikvanga sína úr eigin vasa eða spilað á vettvangi greiddum af einkafjármagni .

Bandaríski þjóðsöngurinn hljómaði í höllinni fyrir leik LA Clippers og …
Bandaríski þjóðsöngurinn hljómaði í höllinni fyrir leik LA Clippers og Phoenix. AFP/Harry How

Tæknin í fyrirrúmi

Vegna tæknibakgrunns Balmers, sem var einn af lykilmönnum í Microsoft, ákvað hann að nota þetta nýja leikfang sitt til að prófa hversu langt væri hægt að fara í að gera reynslu áhorfenda af heimsókn í höllina sem auðveldasta. Til að mynda þurfa áhorfendur að nota snjallsíma og smáforrit til að geta keypt miða, lagt í bílastæði hallarinnar, og borgað fyrir þjónustu og veitingar.

Fyrir þá sem eru nú orðnir of latir til að taka fram símann úr vasanum í viðskiptum, geta áhorfendur tekið sjálfsmynd í símann og hlaðið hana á andlitsgreiningaforrit. Eftir það geta hundruðir myndavéla hallarinnar numið andlit viðkomandi viðskiptavina þegar þeir eru að kaupa sér veitingar eða vörur í Clippers-búðinni. 

Þeir sem vilja kannski ekki lifa í orvellskum heimi geta ennþá notað „gamla mátann“ og tekið fram símann eða greiðslukortið í viðskiptum sínum.

Það er hins vegar engin leið að nota reiðufé í höllinni til viðskipta.

Þegar í sætin er komið er USB-tenging í hverju sæti (þá er hægt að hlaða snjallsímann) og hnappar á sætisörmum sem leyfa áhorfendum að taka þátt í allskonar leikjum á stórum tölvuskjá hallarinnar í leikhléum. 

Blaðamannapassinn kemur sér vel fyrir tæknihræddan

Þessi áhersla á notkun snjallsíma í höllinni hefði í mínu tilfelli leitt til þess að ég myndi einfaldlega aldrei heimsækja hana. Antípat mitt á snjallsímum er vel þekkt meðal vina minna hér vestra, en ég tek snjallsímann minn aldrei með mér þegar ég yfirgef hús mitt, nema að ég sé að fara út úr bænum. 

Clippers-höllin er ekki gerð fyrir fólk eins og mig.

Sem betur fer gerði blaðamannapassi NBA-deildarinnar mér kleift að nota aðeins ökuskírteini til að leggja bifreiðinni og fá blaðamannapassann við inngöngudyrnar. Matsalur fjölmiðlafólks sá síðan um restina.

Í þessari höll er öryggisleit er ekki bara framkvæmd rétt við hana, heldur þar sem fólk fer af bílastæðum sínum handa götunnar í bílageymslum. Það gerir að verkum að maður nýtur betur stóra svæðisins norðan við höllina sjálfa þar sem aðalinngangurinn er, en það svæði er hannað fyrir allskonar gjörninga og skemmtan, og skapar stór svæði fyrir áhorfendur að njóta sín í góða veðrinu áður en farið er inn í höllina. 

Ég sá fólk spila körfubolta á þremur mismunandi svæðum við höllina, en Balmer vill að gestir staðarins hafi tækifæri á að skemmta sér á sem flestan þátt.

Þetta er eina höllin í NBA sem er sérhönnuð fyrir …
Þetta er eina höllin í NBA sem er sérhönnuð fyrir körfubolta. Ljósmynd/Gunnar Valgeirsson

Engar raðir

Þrátt fyrir viðhorf mitt gagnvart þessum nýju viðskiptaháttum var augljóst að sýn Balmers um reynslu áhorfenda virðist vera að ganga upp. Lögð er áhersla á að áhorfendur séu sem mest í sætum sínum í stað þess að bíða í endalausum biðröðum við almenningssalerni eða við kaup á veitingum.

Eitt að því sem maður tekur eftir í flestum íþróttahöllum og leikvöngum eru endalausar biðraðir áhorfenda þegar þeir þurfa að yfirgefa sæti sín. Það var ekki eins sjáanlegt í Clippers-höllinni. Balmer lét setja salerni með þrjátíu metra millibili á göngum hallarinnar, sem er a.m.k. þrisvar sinnum fleiri salerni í höllinni en venja er.

Veitingastaðir eru síðan af öllum gerðum, þar á meðal nokkrir þar sem fólk tekur einfaldlega pakkaðar veitingar úr kæliskápi og greiðir með því að skanna símann á leiðinni út. Það er ekkert starfsfólk á þeim stöðum.

Allt hannað fyrir körfuboltann

Þegar maður loks mætti í sætið í höllinni blöstu ekki einungis við átján þúsund sætin sem eru vel sett upp til að tryggja sem bestu sýn á leikvöllinn og hægt er, heldur og stóri myndskjárinn sem er hringlaga efst í geim hallarinnar, rétt eins og skjárinn á SoFi-leikvanginum sem er nálægt höllinni. 

Mér finnst þessi skjár trufla of mikið til að geta einbeitt sér að leikvellinum sjálfum, en þetta er víst nýi heimurinn í að þróa byggingar fyrir opinbera skemmtan af öllum toga. 

Hann er hins vegar undraverður sem tækni og augljóst var að áhorfendur voru í sífellu að kíkja á það sem þar fór fram.

Varðandi körfuboltaleikinn og reynslu áhorfenda af honum, þá er þessi nýja höll töluvert ólík því sem ég – og flestir kollegar mínir í fjölmiðlastúkunni – höfum séð áður. Sætaröðunum er ekki breitt flatt úr frá leikvellinum sjálfum áður en sætisraðirnar verða brattari, sem skapast oftast í öðrum höllum af því að þær eru hannaðar fyrir bæði körfuknattleik og íshokkí. Íshokkívöllurinn er töluvert stærri en körfuknattleiksvöllurinn og það leiðir til þess að efri sætin verða oft of langt frá vellinum. 

Þessi höll er hins vegar einungis hönnuð sem körfuknattleiksvöllur, þannig að það er í raun sama hvar þú situr, þú hefur yfirhöfuð góða sýn á leikinn. Þetta er ólíkt öðrum NBA-höllum sem ég hef komið í eða séð í sjónvarpi.

Svona er útsýnið efst af veggnum niður á völlinn.
Svona er útsýnið efst af veggnum niður á völlinn. Ljósmynd/Gunnar Valgeirsson

Veggurinn

Kannski er það þó svæðið fyrir aftan aðra körfuna sem einkennir höllina sem mest.

Það svæði lét Balmer hanna fyrir áköfustu áhangendur Clippers (jú, þeir eru til!). Sá hluti hallarinnar er nefndur Veggurinn, því frá endamörkum vallarins eru 51 sætaröð bratt upp. Það svæði var hannað sem eftirmynd nýrri knattspyrnuvalla hér vestra í MLS-deildinni, sem hafa slík svæði fyrir ákafasta stuðningsfólkið handan annars marksins. Slík svæði er einnig hægt að sjá í sumum íþróttahöllum háskólaliða. 

Allt er gert til að ýta undir stemmingu á svæðinu og í þessu tilfelli, trufla andstæðinga Clippers í vítaskotum. 

Balmer hefur látið banna endursölu á miðum í fyrstu þrettán sætisröðunum til að fyrirbyggja að „andstæðingarnir“ nái þar festu.

Kevin Durant, aðalstjarna Phoenix, var spurður um hvað honum hefði fundist um vegginn. „Hann er ótrúlegur. Ég starði mikið á hann því maður er ekki vanur svona umhverfi í öðrum höllum.“

Samherji hans, Devin Booker bætti svo við. „Við geiguðum oftar í vítaskotum í kvöld en venjulega, svo kannski virkar þetta. Ég sá svona svæði í háskólaboltanum, en ekki svona stórt. Veggurinn skapaði dálítið ólíkt andrúmsloft og ég held að þetta verði góður heimavöllur fyrir Clippers.“

Leikurinn sjálfur var fínn NBA-leikur sem fór í framlengingu. Gestirnir frá Phoenix unnu hann á endanum, 116:113, enda er augljóst að þó Balmer hafi byggt frá mínum bæjardyrum séð bestu höllina í NBA-deildinni, á lið hans enn langt í að ógna toppliðunum í Vesturdeildinni.

Clippers er loks komið „heim,“ en nú tekur við að byggja upp betri leikmannahóp ef liðið á að endurspegla nýju höllina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert