Kristinn Pálsson leikmaður Íslands- og deildarmeistara Vals skoraði 24 stig og gaf 6 stoðsendingar þegar Valsmenn máttu þola sjö stiga tap gegn Njarðvík, 101:94, í kvöld.
Valsmenn eru í sjötta sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig eftir fimm leiki.
Spurður út í leikinn sagði Kristinn þetta.
„Þetta var rosalega flatt hjá okkur. Við mættum ekki til leiks í fyrri og vorum einbeitingalausir í fyrri hálfleik. Við vorum að missa manninn okkar og vorum ekki að fylgja honum eftir og þannig fór vörnin okkar bara í rugl sem á ekki að gerast."
Hvað var það sem gerir það að verkum að Njarðvík nær í fyrsta lagi þessu mikla forskoti og nær að halda ykkar stigaskori svona langt niðri?
„Eins og ég sagði þá erum við að klikka á fullt af opnum skotum og erum að svekkja okkur of mikið á því. Afleiðingin kemur síðan í vörninni þar sem við missum fókus. Mér finnst leikurinn liggja þar. Við erum komnir á betri stað en það sem lið að þurfa að vera svekkja okkur á klikkuðum skotum. Við þurfum að læra af þessu og það hratt."
Þú skorar 24 stig og Taiwo Badmus 23 stig í kvöld sem er nákvæmlega helmingurinn af stigaskori liðsins. Er það ekkert áhyggjuefni?
„Nei það gerir það svo sem ekki. Mér fannst boltinn rúlla betur í seinni hálfleik í samanburði við þann fyrri. Síðan vorum við að setja opnu skotinn í seinni hálfleik og þá getum við sett upp þessa Valsvörn sem er umtöluð og þá getum við gert áhlaupin okkar líkt og við gerðum í seinni hálfleik en munurinn var bara of mikill.
Við þurfum bara að setja smá auka púður í að bæta varnarleikinn núna. Við fáum á okkur 101 stig og Valur vinnur ekki leiki með yfir 100 stig á sig."
Ef við skoðum leikinn í heild sinni. Valur fer 22 stigum undir í hálfleik og leikurinn endar með 7 stiga tapi.
„Já mér fannst við sýna meira hverjir við erum í seinni hálfleik. Við erum bara ekki komnir lengra en það að geta spilað 20 mínútur í einu."
Nú eru fimm leikir búnir, 3 töp og 2 sigrar. Er það ásættanlegt fyrir Íslands- og deildarmeistara Vals?
„Auðvitað ekki. Við ætluðum okkur stóra hluti í vetur og ætlum okkur það ennþá. Við erum bara að koma okkur í að spila betur saman sem lið. Við vorum að fá nýjan leikmann í gær sem er að koma sér inn í þetta. Hann er búinn með eina æfingu og það riðlar okkar skipulagi á meðan við erum að slípa okkur saman en við ætlum okkur stærri hluti en þetta og með smá meiri samstillingu held ég að við séum á fínum stað," sagði Kristinn í samtali við mbl.is.