Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var sáttur við tvö stig gegn Íslands- og deildarmeisturum Vals í körfubolta karla í kvöld.
Með sigrinum eru Njarðvíkingar með 8 stig eftir 5 leiki og hafa unnið 4 leiki í röð. Þegar Rúnar Ingi var spurður hvort þetta væru ekki ágæt úrslit fyrir Njarðvík hafði hann þetta að segja.
„Það er virkilega gott að vinna leikinn og ég hefði tekið því fyrir leikinn sæll og glaður að vinna Val með 7 stigum fyrirfram. 2 stig gegn Val er alltaf sterkt.
Við vorum virkilega góðir á köflum í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það sem hinsvegar truflar mig að vissu leiti er að við leyfum þeim að etja okkur út í einhverja vitleysu hérna í seinni hálfleik og gæðin fóru eitthvert allt annað en inn á völlinn. Það er samt skrýtið að vinna Val á heimavelli án Dwayne Lautier en vera samt vera með smá tilfinningu eins og við hefðum átt að gera miklu betur. Mér fannst við eiga að vera miklu betri en margar af þeim vörnum og sóknum sem fóru í vaskinn í seinni hálfleik."
Njarðvík fer með 22 stiga forskot inn í hálfleikinn. Eftir þriðja leikhluta er munurinn 19 stig en endar svo í 7 stiga sigri. Það hefur væntanlega verið mjög mikilvægt að ná þessu forskoti í fyrri hálfleik eða hvað?
„Já, það gerir það en það breytir líka leiknum þegar við náum góðu forskoti. Þeir fara þá að taka snöggar sóknir með þriggja stiga skotum og fóru að finna netið enda frábærir leikmenn í liði Vals.
Á sama tíma fór það að stríða okkur andlega. Við fórum að ofhugsa hlutina í sókninni og sama hvað við reyndum að koma boltanum ofaní körfuna þá bara vildi það ekki gerast. Það sem vantaði upp á hjá okkur á þessum tímapunktum var að vera klárari og skynsamari."
Hvað er það helsta sem þér Njarðvíkingar þurfa að laga fyrir næsta leik sem er á móti KR?
„Við þurfum að ná meiri stöðugleika í okkar leik."
Jákvæðu punktarnir úr þessum leik eru?
„Þeir eru á báðum endum vallarins. Við erum að tengja menn, menn er að stíga upp. Við erum að sýna að við getum sett í lás varnarlega. Það sem er líka frábært er að við getum skorað með fullt af leikmönnum. En það sem ég ætla að taka með mér inn í vikuna er stöðugleiki."
Dwayne Lautier var ekki með í kvöld og ekki í síðasta leik. Er hann meiddur?
„Já hann er meiddur. Hann er held ég ekki alvarlega meiddur. Hann var með á æfingu á þriðjudag en læknirinn mat það þannig að það væri skynsamlegra að hann tæki pásu í kvöld og jafnaði sig betur. Ég býst við honum í grænu treyjunni á Meistaravöllum í næstu viku," sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.