Franski körfuknattleiksmaðurinn Victor Wembanyama kom sér í afar fámennan hóp í NBA-deildinni þegar hann átti stórleik í 106:88-sigri San Antonio Spurs á Utah Jazz í nótt.
Í leiknum náði Wembanyama, sem er aðeins tvítugur, afar sjaldgæfri “fimmu” þar sem hann var með yfir fimm í fimm tölfræðiþáttum.
Wembanyama skoraði 25 stig, tók níu fráköst, gaf sjö stoðsendingar, varði fimm skot og stal boltanum fimm sinnum. Var hann með 43 framlagsstig sem telst nánast yfirgengilegt.
Er þetta í annað sinn á ferlinum sem Wembanyama nær sjaldgæfri “fimmu” í NBA-deildinni.
Til marks um hversu sjaldgæft það er að vera með yfir fimm í fimm tölfræðiþáttum hafa einungis tveir leikmenn til viðbótar við Frakkann unga afrekað það oftar en einu sinni í sögu NBA-deildarinnar.
Þeir eru Hakeem Olajuwon og Andrei Kirilenko.
San Antonio hefur nú unnið tvo af fyrstu fimm leikjum sínum en Utah hefur farið afleitlega af stað og tapað öllum fimm leikjum sínum.
Alls fóru fjórir leikir fram í NBA-deildinni í nótt.
Ja Morant var með þrefalda tvennu þegar lið hans Memphis Grizzlies vann öruggan sigur á Milwaukee Bucks, 122:99.
Skoraði Morant 26 stig, tók tíu fráköst og gaf 14 stoðsendingar.
Gríska undrið Giannis Antetokonmpou var stigahæstur í leiknum með 37 stig auk þess að taka 11 fráköst.
Úrslit næturinnar:
Utah – San Antonio 88:106
Memphis – Milwaukee 122:99
Dallas – Houston 102:108
LA Clippers – Phoenix 119:125