Taphrinu Keflavíkur lauk gegn KR

Halldór Garðar Hermannsson og félagar í Keflavík unnu KR.
Halldór Garðar Hermannsson og félagar í Keflavík unnu KR. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Keflavík og KR áttust við í fimmtu umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld og endaði leikurinn með sigri Keflavíkur, 94:88.

Keflavík er eftir leikinn með 4 stig eftir 5 leiki, líkt og KR. Bæði lið hafa unnið tvo leiki og tapað þremur.

Það var mikil barátta í báðum liðum frá fyrstu sekúndu og skiptust liðin á að jafna og komast yfir. Keflavík komst þó í fína stöðu með góðum kafla um miðjan fyrsta leikhluta en þá jöfnuðu Keflvíkingar í stöðunni 14:14 og komast í 23:14.

KR-ingar söxuðu þó á þetta forskot og fór svo að staðan eftir fyrsta leikhluta var 31:29 fyrir Keflavík.

Annar leikhluti var ansi jafn. KR-ingar jöfnuðu leikinn í stöðunni 32:32 og komust síðan yfir 34:32. Það sem eftir lifði leikhlutans skiptust liðin á að jafna og komast yfir en KR-ingar voru þó ívið sterkari í leikhlutanum.

Keflavík jafnaði í stöðunni 49:49 og fékk síðan tækifæri til að setja niður stig og leiða í hálfleik en KR náði boltanum og setti körfu á lokasekúndu hálfleiksins.

Staðan í hálfleik 51:49 fyrir KR.

Líklega var það blanda af reynslu, formi og útsjónarsemi sem kom í ljós í þriðja leikhluta þegar Keflvíkingar settu í næsta gír og keyrðu fram úr KR-ingum.

Keflvíkingar byrjuðu á því að komast yfir í stöðunni 54:53 og síðan keyrðu þeir hægt og rólega fram úr KR-ingum með fallegum troðslum og varnartilþrifum.

Fór svo að þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 76:61 fyrir Keflavík.

Keflavík byrjaði fjórða leikhlutann á þriggja stiga körfu frá Jarrell Reischel og staðan orðin 79:63 fyrir Keflavík.

KR minnkaði muninn með sex stigum í röð og staðan orðin 79:67. Það sættu Keflvíkingar sig ekki við og settu niður körfu og juku muninn aftur með fjórum stigum í röð. Staðan 83:67.

KR-ingar sóttu í sig veðrið um miðjan leikhlutann og tókst að minnka muninn niður í 6 stig í stöðunni 87:81 og 90:84. Keflvíkingum tókst þó að auka muninn aftur í 10 stig í stöðunni 94:84 og þá gáfust KR-ingar upp og lauk leiknum með sigri Keflavíkur.

Jaka Brodnik var með 19 stig fyrir Keflavík. Marek Dolezaj var með 10 fráköst og var Wendell Green með 5 stoðsendingar í liði Keflavíkur.

Í liði KR var Nimrod Hilliard IV með 20 stig. Vlatko Granic var með 14 fráköst. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var með 7 stoðsendingar.

Keflavík - KR 94:88

Blue-höllin, Bónus deild karla, 01. nóvember 2024.

Gangur leiksins:: 7:6, 14:14, 23:17, 31:26, 32:34, 36:37, 42:43, 49:49, 56:53, 58:57, 69:58, 76:61, 79:65, 83:71, 87:81, 94:88.

Keflavík: Jaka Brodnik 19/9 fráköst, Wendell Green 16/5 stoðsendingar, Igor Maric 16, Marek Dolezaj 14/10 fráköst, Jarell Reischel 13/7 fráköst, Hilmar Pétursson 8, Halldór Garðar Hermannsson 6/4 fráköst, Sigurður Pétursson 2/5 fráköst.

Fráköst: 30 í vörn, 13 í sókn.

KR: Nimrod Hilliard IV 20/5 fráköst/5 stoðsendingar, Vlatko Granic 17/14 fráköst, Linards Jaunzems 14/12 fráköst, Þorvaldur Orri Árnason 10, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 9/7 stoðsendingar, Orri Hilmarsson 8, Dani Koljanin 8/5 fráköst, Veigar Áki Hlynsson 2.

Fráköst: 32 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson.

Áhorfendur: 368

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Keflavík 94:88 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert