Oklahoma ósigrað – Meistararnir góðir

Shai Gilgeous-Alexander skorar tvö af þrjátíu stigum sínum í nótt.
Shai Gilgeous-Alexander skorar tvö af þrjátíu stigum sínum í nótt. AFP/SOOBUM IM

Oklahoma City Thunder hefur unnið alla fimm leiki sína í byrjun NBA tímabilsins í körfubolta en liðið vann stórsigur á Portland Trail Blazers í nótt, 137:114.

Stjörnuleikmaður Oklahoma, Shai Gilgeous-Alexander, fór á kostum í nótt en hann skoraði 30 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar. Þá var Jalen Williams einnig góður en hann skoraði 22 stig, tók fimm fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum.

Eftir leikinn er Oklahoma á toppi Vesturdeildarinnar en Portland er í 12. sæti deildarinnar.

Tatum með stórleik í sigri meistaranna

Jayson Tatum átti stórleik þegar Boston Celtics sigraði Charlotte Hornets, 124:109.

Tatum skoraði 32 stig, tók ellefu fráköst, gaf þrjár stoðsendingar, stal boltanum þrisvar sinnum og varði eitt skot í leiknu:m. Þá var kollegi hans Jalen Brown frábær einnig en hann skoraði 25 stig, tók sex fráköst, gaf fimm stoðsendingar, stal boltanum einu sinni og varði eitt skot.

Hjá Charlotte Hornets átti Lamelo Ball frábæran leik en hann skoraði 31 stig.

Cleveland Cavaliers tapar ekki leik

Þá er Cleveland Cavaliers ósigrað á toppi Austurdeildarinnar en liðið hefur unnið alla sex leiki sína á þessu tímabili.

Liðið vann ellefu stiga sigur á Orlando Magic í gær, 120:109.

Darius Garland var stigahæstur Cleveland í gær með 25 stig en Donovan Mitchell gerði 22 stig. Þá náði Evan Mobley tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 14 stig og tók 12 fráköst.

Önnur úrslit gærkvöldsins:

Detroit Pistons - New York Knicks 98:128
Toronto Raptors - Los Angeles Lakers 125:131
Brooklyn Nets - Chicago Bulls 120:112
Atlanta Hawks - Sacramento Kings 115:123
New Orleans Pelicans - Indiana Pacers 125:118
Minnesota Timberwolves - Denver Nuggets 119:116

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka