Er á góðum stað núna

Stjörnukonan Diljá Ögn Lárusdóttir er mætt aftur í íslenska landsliðið …
Stjörnukonan Diljá Ögn Lárusdóttir er mætt aftur í íslenska landsliðið eftir árs fjarveru vegna erfiðra meiðsla, en hún sleit krossband í hné. mbl.is/Eyþór

Hin 21 árs gamla Diljá Ögn Lárusdóttir er mætt aftur í íslenska landsliðið í körfubolta eftir árs fjarveru vegna meiðsla. Diljá missti af öllu síðasta tímabili eftir að hún sleit krossband í hné.

Hún hefur spilað vel með Stjörnunni á tímabilinu og er í íslenska hópnum sem mætir Slóvakíu og Rúmeníu á heimavelli í undankeppni EM. Báðir leikirnir fara fram í Ólafssal á Ásvöllum, sá fyrri gegn Slóvakíu annað kvöld og sá seinni gegn Rúmeníu á sunnudag.

„Það er geggjað að vera mætt hingað og virkilega gaman að fá að spila körfubolta aftur eftir eins árs fjarveru. Það er geggjað að fá að spila með bestu stelpum landsins,“ sagði Diljá í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu landsliðsins í Ólafssalnum í gær.

Diljá hefur skorað 15 stig, tekið þrjú fráköst og gefið tvær stoðsendingar að meðaltali í fimm leikjum í úrvalsdeildinni á tímabilinu til þessa. Hún er ánægð með þróunina undanfarnar vikur.

„Mér finnst ég á góðum stað núna miðað við hvernig ég var í byrjun, strax eftir meiðslin. Ég er búin að bæta mig mjög mikið með hverri viku sem líður,“ sagði hún og hélt áfram:

„Ég finn að það tekur tíma fyrir hnéð að venjast álaginu og það má segja það sama um allan líkamann, því þetta eru meiri átök en undanfarið ár.“

Mjög erfitt að spila ekki

Diljá átti stóran þátt í að Stjarnan vann sér inn sæti í efstu deild á þarsíðustu leiktíð. Hún meiddist hins vegar áður en hún gat leikið sinn fyrsta leik í efstu deild á síðasta ári. Í fjarveru hennar kom Stjarnan skemmtilega á óvart og komst alla leið í undanúrslit Íslandsmótsins í vor.

„Það var mjög erfitt og sérstaklega því þeim gekk svo vel. Það var geggjað að sjá hvað þeim gekk vel en á sama tíma leiðinlegt að fá ekki að vera partur af því. Það var agalegt að horfa á þetta í úrslitakeppninni, ég vildi svo rosalega mikið fá að vera með,“ sagði hún.

Viðtalið við Diljá Ögn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka