Danielle Rodriguez var valin í íslenska landsliðið í körfubolta í fyrsta skipti fyrir leikina gegn Slóvakíu í kvöld og Rúmeníu á sunnudag í undankeppni Evrópumótsins. Danielle kom fyrst til Íslands árið 2016 og fékk íslenskan ríkisborgararétt í desember á síðasta ári. Hún er fædd og uppalin í Bandaríkjunum en lítur nú á Ísland sem heimili sitt.
„Það er mjög góð tilfinning að vera orðin íslensk. Það var mjög góð tilfinning þegar ég fékk ríkisborgararéttinn í desember, fyrir ýmsar sakir, og nú líka vegna körfuboltans því ég get spilað með landsliðinu. Ég er stolt af að geta kallað mig fulltrúa Íslands,“ sagði Danielle í samtali við Morgunblaðið.
Hún hefur áður verið fulltrúi Íslands í landsliðsverkefnum því Danielle var aðstoðarþjálfari U20 ára landsliðs kvenna frá 2018 til 2019 og A-landsliðsins frá 2020 til 2021. Þá var hún aðalþjálfari U16 ára landsliða stúlkna frá 2022 til 2023. Nú fær hún loksins sjálf að spila í íslensku landsliðstreyjunni.
„Ég hef beðið spennt eftir þessu tækifæri og vonast til að það kæmi. Ég hlakka mikið til að fá að spila í íslensku landsliðstreyjunni,“ sagði hún.
Hún hefur æft Lofsönginn, þjóðsöng Íslands, stíft undanfarinn mánuð til að syngja með fyrir leiki í komandi verkefni. Eins og gefur að skilja er textinn aðeins flókinn fyrir Danielle, þótt hún sé á góðri leið.
„Ég er búin að vera að æfa mig í mánuð. Það er smá partur í byrjun sem ég á í erfiðleikum með, en ég kann 90 prósent af þjóðsöngnum. Ég fæ smá tíma núna til að æfa mig og ná honum alveg.“
Viðtalið við Danielle má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.