Ísland vann sinn fyrsta sigur í tæplega tvö ár þegar liðið vann Rúmeníu í Ólafssal 77:73 eftir æsispennandi lokakafla. Kvennalandslið Íslands vann einmitt Rúmeníu síðast þann 27. nóvember árið 2022 en þá með 10 stiga mun.
Benedikt Guðmundsson þjálfari Íslands var að vonum ánægður með sigurinn þó að hann hafi viljað sjá lið sitt tryggja sigurinn fyrr í leiknum. Spurður að því hvort sigurinn hafi verið sanngjarn sagði Benedikt þetta.
„Algjörlega sanngjarn sigur, já. Það hefði verið mjög ósanngjarnt hefðum við tapað í ljósi þess að við leiðum nánast allan leikinn.
Við hefðum getað verið búin að byggja upp stærra forskot ef við hefðum verið með betri nýtingu á færum. Það komu fullt af tækifærum til þess. En fyrst það tókst ekki þá var ekkert leiðinlegt að klára þetta með svona dramatískum hætti. Það sem skiptir samt mestu máli er sigurinn og stelpurnar voru sterkar í kollinum.“
Ísland nær 13 stiga forskoti í stöðunni 44:31 í öðrum leikhluta en missir það forskot síðan niður í 7 stig. Íslenska liðið nær aftur að byggja upp forskot áður en það missir muninn niður. Þetta var sveiflukennt hjá þínu liði, ekki satt?
„Við náum þessu forskoti í lok annars leikhluta en fáum þá tvo þrista í andlitið og er munurinn kominn niður í 7 stig. Þær halda síðan áfram að saxa á okkur í seinni hálfleik áður en við náum að byggja aftur upp forskot og fáum sénsa til að klára þetta þegar þær verða pirraðar og fá á sig óíþróttamannslegar villur og fleira en við nýttum þau moment ekki nægilega vel og buðum hættunni heim en sem betur fer náðum við að klára þetta með sigri.“
Þristarnir voru heldur betur að detta hjá Íslandi í dag og fyrstu fimm körfur liðsins í dag voru þristar. Var lagt upp með þetta fyrir leik?
„Við viljum alltaf að Thelma sé að skjóta boltanum og erum alltaf að teikna eitthvað fyrir skytturnar okkar. Rúmenía byrjaði í svæðisvörn og þá opnast fyrir svona opin þriggja stiga skot. Síðan þegar Thelma var búin að setja held ég fjóra þrista þá hættu Rúmenarnir í svæðisvörn og fóru maður á mann. Ég myndi segja að við höfum nýtt svæðisvörnina þeirra mjög vel og refsað þeim.“
Danielle Rodriguez skoraði glæsilega þriggja stiga körfu og fékk að auki vítaskot þegar örfáar sekúndur voru eftir af leiknum. Reyndist karfan vera sigurkarfa Íslands í leiknum. Það lá því beinast við að spyrja Benedikt af hverju hann ákvað að Danielle tæki skotið en ekki Thelma sem hafði skorað sex þriggja stiga körfur í leiknum.
„Já, Danielle getur tekið manninn sinn á og er bara öðruvísi skorari en Thelma sem er frábær skytta þegar hún fær góðar opnanir. Við vitum að Daniella getur þetta og það var kominn skotréttur og ég vildi að hún myndi bara sækja á manninn sinn og fá brotið eða komast fram hjá og búa til færi fyrir næsta mann. Síðan bara kom þetta ótrúlega skot og brotið á henni. Það teiknar enginn upp svona skot og þetta var bara algjörlega frábært.“
Næstu verkefni eru í febrúar. Hvernig sérðu framhaldið?
„Þá eru heldur betur erfiðir leikir gegn Tyrklandi og Slóvakíu úti. Bæði lið voru á lokamótinu í Evrópumótinu síðast þar sem Slóvakía vann Tyrkland með 14 stigum. Við elskum að spila við þessar sterku þjóðir. Það er ekki langt síðan við vorum að tapa fyrir þessum þjóðum með 50-60 stigum en núna erum við að stríða þeim.“
Hvernig setur landsliðsþjálfari upp leiki gegn þjóðum þar sem það eru ekki miklar væntingar um að liðið vinni?
„Bara fá frammistöðu og halda áfram að verða betri sem lið, halda áfram að bæta sig frá síðasta leik. Okkar markmið er alltaf að gefa allt í leikinn og halda plani, halda okkur við þær róteringar sem við erum með í vörn og svo tékkum við bara á stöðunni þegar leikurinn er búinn. Alveg sama á móti hverjum við spilum og sérstaklega gegn þessum stóru þjóðum sem eiga að vera miklu betri en við,“ sagði Benedikt í samtali við mbl.is.