Victor Wembanyama átti lygilegan leik þegar hann skoraði 50 stig í 139:130-sigri San Antonio Spurs á Washington Wizards í NBA-deildinni í körfuknattleik.
Frakkinn, sem er aðeins tvítugur, er þar með fjórði yngsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar sem afrekar það að skora 50 stig. Einungis Brandon Jennings, LeBron James og Devin Booker voru yngri þegar þeir náðu því.
Wembanyama hafði mest skorað 40 stig í einum leik í NBA-deildinni áður en hann setti niður 50 á 26 mínútum í nótt. Franska ungstirnið setti niður átta þriggja stiga körfur, sem er einnig persónulegt met hjá Wembanyama.
Hann skyggði því aðeins á frábæran leik Jordans Pooles, sem skoraði 42 stig fyrir Washington.
Gríska undrið Giannis Antetokounmpo mátti ekki minni maður vera en Frakkinn og átti ótrúlegan leik fyrir Milwaukee Bucks í 127:120-sigri á Detroit Pistons í framlengdum leik.
Antetokounmpo skoraði 59 stig, tók 14 fráköst, gaf sjö stoðsendingar, stal boltanum tvisvar og varði þrjú skot.
Eru þetta næstflest stig sem Grikkinn hefur skorað í einum leik á ferlinum. Mest hefur hann skorað 64 stig.
Karl-Anthony Towns skoraði þá 46 stig fyrir New York Knicks í naumu tapi fyrir Chicago Bulls, 124:123.
Towns tók auk þess tíu fráköst og stal boltanum þrisvar sinnum.
Er þetta aðeins í annað sinn í sögu NBA-deildarinnar sem þrír leikmenn skora 45 stig eða meira á einum keppnisdegi.
Cleveland Cavaliers hélt þá magnaðri byrjun sinni á tímabilinu og vann 13. leikinn í röð. Að þessu sinni vann Cleveland Philadelphia 76ers 114:106.
Cleveland er aðeins sjötta liðið í sögu deildarinnar sem vinnur fyrstu 13 leiki sína í henni.
Önnur úrslit:
Orlando - Indiana 94:90
Brooklyn - Boston 114:139
Oklahoma City - New Orleans 106:88
Houston - LA Clippers 111:103
LA Lakers - Memphis 128:123
Portland - Minnesota 106:98
Sacramento - Phoenix 127:104