Körfuknattleiksþjálfarinn reyndi Gregg Popovich er á batavegi eftir að hafa fengið vægt heilablóðfall í byrjun mánaðarins.
Popovich, sem þjálfar San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfuknattleik, fékk heilablóðfall fyrir leik gegn Minnesota Timberwolves þann 2. nóvember.
Af þeim sökum hefur hann ekki verið á hliðarlínunni hjá San Antonio í síðustu sex leikjum í deildinni.
Í tilkynningu frá félaginu segir að Popovich sé byrjaður í endurhæfingu en að ekki liggi fyrir hvenær hann geti snúið aftur á hliðarlínuna.
Popovic er 75 ára gamall, hefur þjálfað San Antonio frá árinu 1996 og unnið fimm NBA-meistaratitla á 29 tímabilum. Hann er elsti þjálfari í sögu deildarinnar.