Anthony Davis skoraði 31 stig fyrir Los Angeles Lakers í naumum sigri gegn New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í nótt. Leiknum lauk með fimm stiga sigri Lakers, 104:99.
Auk þess að skora 31 stig tók Davis 14 fráköst. LeBron James var með 21 stig, gaf fimm stoðsendingar og reif niður sjö fráköst.
Stigahæstur í leiknum var Brandom Ingram með 32 stig fyrir Pelicans en hann gaf einnig átta stoðsendingar í leiknum.
Jayson Tatum var hetja Boston Celtics í sigri gegn Toronto Raptors í framlengdum leik í nótt. Tatum skoraði ótrúlegan flautuþrist sem tryggði Celtics sigurinn, 126:123.
Jaylen Brown var stigahæstur í liði Celtics með 27 stig en hann tók einnig sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Tatum var með 24 stig auk þess tók hann 11 fráköst og gaf níu stoðsendingar.
Austurríkismaðurinn Jakob Pöltl var stigahæstur í leiknum með 35 stig fyrir Raptors.
De’Aaron Fox gerði sér lítið fyrir og skoraði 49 stig í sigri Sacramento Kings gegn Utah Jazz, 121:117. Þetta er annar stórleikur Fox í röð en hann skoraði 60 stig í síðasta leik.
Hinn finnski Lauri Markkanen var stigahæstur hjá Jazz með 25 stig og fimm fráköst.
Öll úrslit:
Boston Celtics - Toronto Raptors 126:123
New Orleans Pelicans - Los Angeles Lakers 99:104
Sacramento Kings - Utah Jazz 121:117
Dallas Mavericks - San Antonio Spurs 110:93