Los Angeles Clippers lagði Golden State Warriors að velli í stórleik næturinnar í NBA-körfuboltanum, 102:99 í nýju Clippers-höllinni í Los Angeles, eftir æsispennandi lokakafla þar sem hvorugu liðanna tókst að skora síðustu 35 sekúndurnar.
Þetta var þriðja tap Golden State í fyrstu 13 leikjunum en liðið hefur byrjað tímabilið ákaflega vel. Clippers vann sinn áttunda leik af fimmtán. Norman Powell var í aðalhlutverki hjá Clippers og skoraði 23 stig en Steph Curry skoraði 26 stig fyrir Golden State.
Damian Lillard tryggði Milwaukee Bucks sigur á Houston Rockets, 101:100, með sigurkörfu fjórum sekúndum fyrir leikslok. Brook Lopez skoraði 27 stig fyrir Milwaukee og tók 10 fráköst, Giannis Antetokounmpo skoraði 20 stig og tók 13 fráköst og Lillard var með 18 stig og 10 stoðsendingar.
Keon Ellis skoraði 33 stig fyrir Sacramento Kings gegn Atlanta Hawks og setti með því persónulegt met í deildinni. Það dugði þó ekki því Atlanta vann góðan útisigur, 109:108.
Úrslitin í nótt:
Detroit - Chicago 112:122
Toronto - Indiana 130:119
New York - Washington 134:106
Miami - Philadelphia 106:89
Milwaukee - Houston 101:100
Phoenix - Orlando 99:109
Sacramento - Atlanta 108:109
LA Clippers - Golden State 102:99
Cleveland er enn ósigrað í deildinni en liðið hefur unnið fyrstu 15 leiki sína. Næstu lið á eftir eru Boston Celtics (11/3), Oklahoma City Thunder (11/3) og Golden State Warriors (10/3).