„Ég hef engar áhyggjur af þessu“

Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi leikur leggst mjög vel í mig og við erum allir fullir tilhlökkunar,“ sagði Elvar Már Friðriksson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, í samtali við mbl.is á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll í vikunni.

Ísland mætir Ítalíu í tveimur leikjum í B-riðli undankeppni EM 2025, í Laugardalshöll í kvöld og svo í Reggio á Ítalíu á mánudaginn kemur en Ísland er með 2 stig í þriðja sæti riðilsins á meðan Ítalía er með 4 stig í efsta sætinu. Liðin sem enda í efstu þremur sætum riðilsins tryggja sér sæti í lokakeppninni.

Gaman að hitta strákana

„Það er alltaf gaman að hitta strákana og það er líka gott að breyta aðeins um umhverfi. Það er ekki langt síðan við spiluðum við þá síðast og við vitum því aðeins út í hvað við erum að fara. Það er líka hellingur sem við tökum með okkur úr leikjunum gegn Ungverjalandi og Tyrklandi í síðasta landsleikjaglugga.

Þó að við hefðum tapað leiknum gegn Tyrkjum með minnsta mun þá sýndum við það og sönnuðum fyrir sjálfum okkur að við getum alveg keppt við þessi bestu landslið. Við vorum einu skoti frá því að vinna þá og það gefur okkur sjálfstraust farandi inn í þennan leik gegn Ítölunum. Ég hef engar áhyggjur af þessu og hlakka mikið til,“ sagði Elvar Már.

Ekki í stóru hlutverki á stórmóti

Eftir sigur Íslands gegn Ungverjalandi í febrúar er liðið í lykilstöðu að tryggja sér sæti í lokakeppni EM sem fram fer á Möltu, í Póllandi, Finnlandi og Lettlandi í ágúst og september á næsta ári.

„Við eigum ennþá möguleika á því að enda í fyrsta sæti í riðilsins. Riðillinn er galopinn ennþá og við viljum að sjálfsögðu koma okkur í sem besta stöðu fyrir lokaleikina svo það sé ekki allt undir einhvernvegin í lokaleiknum.

Sjálfur hefur maður aldrei verið í neinu hlutverki áður á stórmóti og það væri auðvitað draumur að fara með landsliðinu á EM, vera í stóru hlutverki með liðinu og máta sig við þessar bestu þjóðir álfunnar. Það er klárlega markmiðið okkar,“ sagði Elvar Már í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert