Jamil Abiad, þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik og bráðabirgðaþjálfari karlaliðsins á meðan Finnur Freyr Stefánsson er í veikindaleyfi, er mættur aftur til landsins eftir að hann þurfti að fara aftur heim til Kanada vegna útrunnins atvinnuleyfis.
Abiad var á hliðarlínunni á miðvikudagskvöld þegar Valur tapaði fyrir Stjörnunni í úrvalsdeildinni.
Í samtali við Karfan.is eftir leikinn var hann spurður út í stöðuna á atvinnuleyfi sínu. Svaraði Abiad því til að allt væri klappað og klárt í þeim efnum og að hann geti því haldið störfum sínum áfram hér á landi.