„Það er stutt síðan að við spiluðum við þá síðast þannig að við þekkjum aðeins til þeirra,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, í samtali við mbl.is á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll í vikunni.
Ísland mætir Ítalíu í tveimur leikjum í B-riðli undankeppni EM 2025, í Laugardalshöll í kvöld og svo í Reggio á Ítalíu á mánudaginn kemur en Ísland er með tvö stig í þriðja sæti riðilsins á meðan Ítalía er með fjögur stig í efsta sætinu. Liðin sem enda í efstu þremur sætum riðilsins tryggja sér sæti í lokakeppninni.
„Við erum spenntir að takast á við þetta verkefni. Við höfum sýnt það og sannað á undanförnum árum að við getum gefið hvaða liði sem er alvöru leik, sérstaklega á heimavelli. Við vorum ekki langt frá því að vinna Tyrkina úti og staðreyndin er bara sú að við erum komnir með hörkulið í dag. Við teljum okkur geta unnið hvaða lið sem er í dag, þegar við erum á deginum okkar, og Ítalir eru bara eins og hvert annað lið,“ sagði 215 sentímetramaðurinn Tryggvi Snær.
Tryggvi Snær átti einn af leikjum lífs síns þegar Ísland hafði betur gegn Ítalíu, 107:105, eftir tvíframlengdan leik á Ásvöllum í undankeppni HM 2023 en Tryggvi skoraði 34 stig, tók 21 frákast og gaf fimm stoðsendingar. Hann var með 50 framlagspunkta sem er met í undankeppni EM.
„Ég er mjög spenntur en ég geri fastlega ráð fyrir því að Ítalirnir séu enn þá sárir með þau úrslit. Ég reikna með því að ég verði í slagsmálum í þessum leik, eins og venjulega. Ég mun að sjálfsögðu gera mitt allra besta eins og aðrir leikmenn liðsins,“ sagði Tryggvi Snær í samtali við mbl.is.