„Frammistaðan hjá strákunum var ótrúleg í kvöld,“ sagði Elvar Már Friðriksson eftir stórmerkilegan sigur Íslands á Ítalíu, 81:74, í undanriðli-B fyrir Evrópumótið í körfubolta í Reggio Emilia á Ítalíu í kvöld.
Íslenska liðið er nú komið með fjögur stig í B-riðlinum og er skrefi nær EM.
Ítalía er eitt af 15 bestu landsliðum heims, Elvar sagði í samtali við RÚV eftir leikinn að landsliðsmennirnir fatti ekki alltaf við hverja þeir er að spila, sem geri þá svo skemmtilega vitlausa.
„Ég held við séum bara svona skemmtilega vitlausir. Við föttum ekki á móti hverjum við erum að spila og erum fastir í okkar leik.
Frammistaðan hjá strákunum var ótrúleg í kvöld. Kristinn Pálsson, Arnar að koma inn á. Styrmir, Bjarni, þetta var úr öllum áttum og við þurftum á þessu að halda.“
Craig Pedersen landsliðsþjálfari Íslands var mikið að skipta á mönnum og fengu lykilmenn meiri hvíld en oft áður.
„Ég er vanur að spila lengi en fann það núna hversu mikilvægt það er að fá blástur inn á milli. Þegar ég fer út af koma aðrir strákar með mikla orku inn í leikinn. Þá byggist þetta áfram upp og ég kem endurnærður til baka.
Við gerðum fáránlega vel í kvöld,“ bætti Elvar Már við.
Elvar var síðan spurður út í hvað hafi skilað sigrinum.
„Að ná aftur einbeitingu þegar við tökum leikhlé. Það þýðir ekkert að setja hausinn niður. Þetta kom í röðum hjá okkur og það var auðvelt að vera jákvæður.“
Er þetta þinn stærsti sigur á ferlinum?
„Mögulega einn af þeim. Koma hingað til Ítalíu þar sem enginn hafði trú á því að myndum einu sinni stríða þeim eftir síðasta leik. Þetta er minn uppáhalds sigur akkúrat núna,“ sagði Elvar Már við RÚV.