Króatinn snýr aftur til Íslands

Nikolas Tomsick í leik með Þór í Þorlákshöfn gegn KR.
Nikolas Tomsick í leik með Þór í Þorlákshöfn gegn KR. mbl.is/Haraldur Jónasson

Króatíski körfuboltamaðurinn Nikolas Tomsick er á leið til Íslands á ný eftir tæplega fjögurra ára fjarveru en hann hefur samið við Þór í Þorlákshöfn út þetta tímabil.

Tomsick, sem er 33 ára gamall bakvörður, með bæði króatískt og bandarískt ríkisfang, er vel þekktur hér á landi eftir góða frammistöðu með Þór veturinn 2018-2019, með Stjörnunni 2019-20 þegar hann varð bikarmeistari með Garðabæjarliðinu, og með Tindastóli tímabilið 2020-21.

Tomsick kemur til Þórs frá skoska liðinu Caledonia Gladiators, sem leikur í skosku úrvalsdeildinni, en þar var hann á skammtímasamningi og spilaði þrjá leiki í nóvember. 

Eftir Íslandsdvölina lék hann með Prishtina í Kósóvó, Olomoucko í Tékklandi, Kortrijk Spurs í Belgíu og Donar Groningen í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert