Njarðvík upp að hlið toppliðsins

Brittany Dinkins skýtur á körfu Grindvíkinga í kvöld.
Brittany Dinkins skýtur á körfu Grindvíkinga í kvöld. mbl.is/Eyþór

Njarðvík fór upp að hlið toppliðs Hauka í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld með sigri á grönnum sínum í Grindavík í Smáranum, tímabundnum heimavelli Grindvíkinga. Urðu lokatölur 66:60.

Njarðvík er með 14 stig, eins og Haukar, en Haukaliðið á leik til góða. Grindavík er með sex stig, eins og Aþena, Valur og Hamar/Þór í fjórum neðstu sætunum.

Njarðvíkingar byrjuðu með látum og unnu fyrsta leikhlutann 23:8. Grindavík svaraði vel í öðrum og þriðja leikhluta og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 44:40, Grindavík í vil.

Njarðvík var hins vegar mun sterkari í fjórða leikhlutanum og vann sex stiga sigur.

Brittany Dinkins skoraði 29 stig og tók tíu fráköst fyrir Njarðvík. Emilie Sofie Hesseldal skoraði 13 stig og tók 12 fráköst.

Alexis Morris skoraði 25 stig fyrir Grindavík og Isabella Ósk Sigurðardóttir kom næst með 12 stig og tíu fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert