Njarðvík og Keflavík áttust við í 11. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfubolta og lauk leiknum með sigri Njarðvíkur, 98:88. Leikið var í Icemar höllinni í Innri Njarðvík.
Eftir leikinn er Njarðvík með 16 stig en Keflavík er áfram með 14 stig.
Njarðvíkurkonur byrjuðu leikinn vel og komust í 7:0 áður en fystu stig Keflavíkur komu. Jasmine Dickey dró vagninn fyrir Keflavíkurkonu og skoraði fyrstu 6 af 8 stigum Keflavíkur.
Njarðvíkurkonur voru skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og leiddu að lokum með 8 stigum í stöðunni 25:17.
Taflið snérist heldur betur við í öðrum leikhluta þegara Keflavíkurkonur mættu tvíefldar til leiks og skoruðu fyrstu 12 stigin í leikhlutanum og náðu 4 stiga forskoti í stöðunni 29:25 fyrir Keflavík.
Njarðvíkurkonur náðu loks að skora af vítapunktinum en það breytti því ekki að Keflavíkurkonur voru skrefinu á undan í leikhlutanum og náðu mest 7 stiga forskoti í stöðunni 43:36.
Njarðvíkurkonur náðu þó að koma til baka fyrir lok hálfleiksins og minnkuðu muninn niður í eitt stig. Staðan í hálfleik 43:42 fyrir Keflavík.
Brittany Dinkins var atkvæðamest í liði Njarðvíkur í fyrri hálfleik og var með 15 stig. Jasmine Dickey var með stigi meira fyrir Keflavík eða 16 stig og 6 fráköst. Emilie Sofie var með 12 fráköst í fyrri hálfleik í liði Njarðvíkur.
Það var engu líkara en að fyrri hálfleikurinn hafi verið að endurtaka sig í þeim þriðja. Njarðvíkurkonur skoruðu fyrstu 7 stigin áður en Keflavík skoraði. Það var þó vissulega jafnara á með liðunum en Njarðvíkurkonur voru alltaf skrefinu á undan.
Fór svo að þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 70:65 fyrir Njarðvík og spennandi fjórði leikhluti framundan.
Njarðvíkurkonur skoruðu fyrstu 4 stig fjórða leikhluta komust 9 stigum yfir í stöðunni 74:65. Keflavíkurkonur neituðu þó að gefast upp og minnkuðu muninn niður í 4 stig í stöðunni 74:70.
Keflvíkingum tókst að minnka muninn í eitt stig í stöðunni 78:77 en þá setti Hulda María Agnarsdóttir niður gríðarlega mikilvægt þriggja stiga skot og jók muninn í fjögur stig í stöðunni 81:77 fyrir Njarðvík.
Njarðvíkurkonur reyndust sterkari í lokakafla leiksins og sigldu framúr liði Keflavíkur. Mestur varð munurinn 11 stig en Njarðvíkurkonur unnu að lokum 10 stiga sigur á nágrönnum sínum 98:88.
Stigahæst í liði Njarðvíkur var Brittany Dinkins með 41 stig. Emilie Sofie var með 18 fráköst.
Í liði Keflavíkur var Jasmine Dickey með 38 stig og 11 fráköst.