Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik og fyrirliði þýska liðsins Alba Berlín, er eftirsóttur af liðum í Euroleague, eða Evrópudeildinni, sterkustu deild Evrópu.
Hann leikur þar með þýska liðinu og er í lykilhlutverki. Mörg lið í deildinni eru að svipast um eftir nýjum leikmönnum þessa dagana en félagaskiptaglugga deildarinnar verður lokað á jóladag, 25. desember.
Vefmiðillinn Basketnews segir að samkvæmt sínum heimildum sé Martin einn af eftirsóttustu leikmönnum deildarinnar um þessar mundir, hafi fengið margar fyrirspurnir og eitt mjög gott tilboð frá liði í Euroleague.
Alba hafi hins vegar gert öllum það ljóst að fyrirliðinn sé ekki til sölu núna, enda sé liðið nýbúið að selja Trevino Williams til Maccabi Tel Aviv.