Franska ungstirnið Victor Wembanyama fór fyrir San Antonio Spurs þegar liðið tapaði naumlega fyrir Minnesota Timberwolves, 112:110, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Wembanyama, sem er aðeins tvítugur, skoraði 34 stig og tók átta fráköst fyrir San Antonio sem hefur unnið 16 leiki og tapað 16 á tímabilinu.
Donte DiVincenzo var stigahæstur hjá Minnesota með 26 stig og sjö fráköst.
Trae Young átti stórleik fyrir Atlanta Hawks í 136:107-sigri á Toronto Raptors. Young skoraði 34 stig og gaf tíu stoðsendingar.
Indiana Pacers vann nokkuð óvæntan útisigur gegn Boston Celtics, 123:114. Þar voru Tyrese Haliburton og Jaylen Brown atkvæðamestir hjá liðum sínum.
Haliburton skoraði 31 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar hjá Indiana.
Brown var sömuleiðis með 31 stig fyrir Boston auk þess að gefa sex stoðsendingar.
Önnur úrslit:
Orlando – Brooklyn 102:101
Houston – Miami 100:104
Oklahoma City – Memphis 130:106