Friðrik Ingi Rúnarsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Hauka í körfuknattleik í staðinn fyrir Maté Dalmay sem var sagt upp störfum 1. desember.
Friðrik er einn reyndasti körfuknattleiksþjálfari landsins en hann hætti störfum með kvennalið Keflavíkur 16. desember, eftir að hafa tekið við því síðasta sumar.
Friðrik hóf þjálfaraferilinn með sínu félagi, Njarðvík, aðeins rúmlega tvítugur, og hefur síðan m.a. þjálfað bæði karla- og kvennalið Grindavíkur, karlalið KR, Keflavíkur, Þórs í Þorlákshöfn og ÍR, og þá þjálfaði hann karlalandslið Íslands á árunum 1999 til 2003.
Þá er Friðrik leikjahæstur allra þjálfara í efstu deild karla með samtals 574 leiki í deildar- og úrslitakeppni, samkvæmt Facebook-síðu Stattnördanna.
Emil Barja hefur stýrt Haukaliðinu í undanförnum leikjum en mun nú einbeita sér að kvennaliði Hauka.
Fyrsta verkefni Friðriks er leikur Hauka gegn Hetti á Egilsstöðum annað kvöld en Hafnarfjarðarliðið situr á botni úrvalsdeildarinnar með aðeins fjögur stig, fjórum stigum á eftir næstu liðum.