Martin Hermannsson, fremsti körfuknattleiksmaður Íslands, glímir við meiðsli í hásin og lék því ekki með Alba Berlín gegn Bayern München í efstu deild Þýskalands í dag, þar sem Alba vann óvæntan sigur, 88:81.
Félagið greindi frá á samfélagsmiðlum sínum og segir að Martin sé að glíma við meiðsli í hásin en ekki er tekið fram hve alvarleg meiðslin eru.
Leikstjórnandinn missti einnig af leik Alba og Mónakó í Evrópudeildinni á fimmtudaginn en hann lék síðast á gamlársdag gegn Rostock og var stigahæstur með 25 stig.
Hann meiddist í hásin í nóvember en byrjaði aftur að spila í desember. Þá sleit Martin krossband í hné árið 2022 og þurfti að fara í aðgerð á sama hné haustið ári síðar.
Alba er í 13. sæti með fimm sigra og átta töp eftir 13 leiki í þýsku deildinni.