Máté í viðræðum við Keflavík

Maté Dalmay gæti tekið við Keflavík.
Maté Dalmay gæti tekið við Keflavík. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur rætt við Máté Dalmay um þjálfun kvennaliðs félagsins en staðan er laus eftir að Friðrik Ingi Rúnarsson sagði starfi sínu lausu fyrir áramót.

Keflavík er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari en liðið er í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar um þessar mundir með 14 stig eftir ellefu leiki.

Máté þjálfaði síðast karlalið Hauka en hann hætti með liðið 1. desember eftir slæma byrjun á tímabilinu. Voru Haukar stigalausir eftir átta umferðir þegar Máté lét af störfum. Friðrik Ingi tók einmitt við starfinu hans Mátés.

Máté tók við Haukum fyrir tímabilið 2021/22 og kom liðinu upp í efstu deild með sannfærandi hætti á fyrsta tímabili.

Haukar enduðu svo í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar tímabilið á eftir, en féllu úr leik gegn Þór frá Þórlákshöfn í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Liðið endaði svo í tíunda sæti á síðustu leiktíð og var langt frá sæti í úrslitakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert