Sölvi Ólason er genginn til liðs við uppeldisfélag sitt Breiðablik á nýjan leik.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Sölvi hélt út til Bandaríkjanna síðasta sumar og stóð til að hann myndi leika með háskólaliði Portland Community á tímabilinu.
Hann meiddist hins vegar í upphafi tímabilsins og er því mættur aftur heim í Kópavoginn þar sem hann mun leika með liðinu út yfirstandandi keppnistímabil.
Hann var lykilmaður liðsins í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og skoraði 10 stig að meðaltali, tók tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í leik en Blikar höfnuðu í neðsta sæti deildarinnar og féllu.
Breiðablik er sem stendur í fimmta sæti 1. deildarinnar með 14 stig eftir fyrstu tólf umferðirnar, 8 stigum minna en topplið Ármanns.