Njarðvík tryggði sér sæti í undanúrslitum bikars kvenna í körfuknattleik með sigri gegn Tindastól, 80:73, í dag.
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og var staðan 17:15 fyrir Njarðvík að honum loknum. Njarðvík var sterkari aðilinn í öðrum leikhluta og náði að stækka forskotið í átta stig, 35:27, þegar flautað var til leikhlés.
Þrátt fyrir jafnan seinni hálfleik náði Tindastóll aldrei að ógna Njarðvík sem vann að lokum sjö stiga sigur, 80:73.
Brittany Dinkins var með þrefalda tvennu fyrir Njarðvík en hún skoraði 23 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.
Hjá Tindastóli var Ilze Jakobsone stigahæst með 20 stig, átta fráköst og þrjár stoðsendingar.