Towns atkvæðamestur í borgarslagnum

Karl-Anthony Towns í leik með New York Knicks.
Karl-Anthony Towns í leik með New York Knicks. AFP/Al Bello

Karl-Anthony Towns fór fyrir New York Knicks þegar liðið lagði nágranna sína í Brooklyn Nets, 99:95, í borgarslag í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Towns skoraði 25 stig, tók 16 fráköst, gaf sex stoðsendingar, stal þremur boltum og varði tvö skot og sýndi fyrirtaks alhliða frammistöðu.

Stigahæstur hjá Brooklyn var D’Angelo Russel með 23 stig, tíu stoðsendingar og þrjú varin skot.

Serbinn Nikola Jokic var þá með þrefalda tvennu eina ferðina enn þegar lið hans Denver Nuggets vann öruggan sigur á Philadelphia 76ers, 144:109.

Jókerinn var með 27 stig, 13 fráköst og tíu stoðsendingar.

Stigahæstur í leiknum var Tyrese Maxey með 28 stig og tíu stoðsendingar fyrir Philadelphia.

Önnur úrslit:

Miami – Portland 107:116
Toronto – Orlando 109:93
LA Lakers – Washington 111:88

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert