Njarðvík vann sinn fjórða leik í röð í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið tók á móti Hetti í 15. umferð deildarinnar í Njarðvík.
Leiknum lauk með naumum sigri Njarðvíkinga, 110:101, en Khalil Shabazz var stigahæstur hjá Njarðvík í leiknum með 31 stig, fimm fráköst og sex stoðsendingu.
Njarðvík er með 20 stig í þriðja sæti deildarinnar, fjórum stigum minna en topplið Stjörnunnar. Höttur, sem var að tapa fjórða leiknum í röð, er í ellefta og næstneðsta sætinu með 8 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Njarðvíkingar voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með fjórum stigum í hálfleik, 45:41. Bæði lið skoruðu 31 stig í þriðja leikhluta og Njarðvíkingar áfram með fjögurra stiga forskot að þriðja leikhluta loknum, 76:72.
Þegar tæplega fjórar mínútur voru til leiksloka náðu Njarðvíkingar átta stiga forskoti, 93:85, og Hattarmönnum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil á lokamínútunum.
Veigar Páll Alexandersson skoraði 25 stig fyrir Njarðvík, ásamt því að taka níu fráköst og gefa fjórar stoðsendingar en Juston Roberts var stigahæstur hjá Hetti með 27 stig, þrjú fráköst og tvær stoðsendingar.