Steinlágu í fyrsta leik án Doncic

Jason Miller sækir að vörn Dallas í nótt.
Jason Miller sækir að vörn Dallas í nótt. AFP/Jason Miller

Dallas Mavericks tapaði stórt fyrir Cleveland Cavaliers, 144:101, í fyrsta leik liðsins í NBA-deildinni í körfuknattleik eftir að Luka Doncic var óvænt skipt til LA Lakers.

Leikurinn fór fram í nótt og lagði Cleveland grunninn að sigrinum með ótrúlegum fyrsta leikhluta þar sem staðan var 50:19. Staðan í hálfleik var svo 91:46.

Sam Merrill var stigahæstur í leiknum með 27 stig fyrir Cleveland. Evan Mobley bætti við 22 stigum og 11 fráköstum.

Stigahæstur hjá Dallas var Jaden Hardy með 21 stig. Auk þess að sjá á eftir Doncic saknaði Dallas Kyrie Irving, sem er frá vegna meiðsla.

Frábær endurkoma Boston

Ríkjandi NBA-meistarar Boston Celtics unnu sterkan útisigur á Philadelphia 76ers, 118:110. Um frábæran endurkomusigur var að ræða þar sem Boston var þegar verst lét 26 stigum undir.

Jayson Tatum fór hamförum hjá Boston er hann skoraði 35 stig, tók sjö fráköst og gaf 11 stoðsendingar.

Tyrese Maxey var atkvæðamestur hjá Philadelphia með 34 stig og sex stoðsendingar.

Önnur úrslit:

Detroit – Chicago 127:119
Toronto – LA Clippers 115:108
Milwaukee – Memphis 119:132

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert