Þegar undirritaður sá á rúllandi textanum á ESPN-sjónvarpsstöðinni hér í Los Angeles á laugardagskvöld að LA Lakers og Dallas Mavericks hefðu skipt á tveimur af bestu leikmönnum deildarinnar spurði ég sjálfan mig: „Ég veit að ég er stundum ruglaður á dagsetningum, en fyrsti apríl var ekki í dag!“
Hugmyndin að Dallas myndi losa sig við Luka Doncic til LA Lakers í skiptum fyrir Anthony Davis var nokkuð sem ég hefði aldrei hugsað sem möguleika, og var ég ekki einn um það. Þegar litið var á NBA-fjölmiðla heimsins eftir að skiptin komu í fréttum er ljóst að allir þeir sem eru hluti af honum voru gáttaðir, ef marka má færslur þeirra á samfélagsmiðlum á sunnudaginn.
Hið sama má segja um leikmennina í NBA og forráðamenn flestra liðanna. Enginn hafði hugmynd um að þetta væri í bígerð, hvað þá að slíkur jarðskjálfti á leikmannamarkaðnum myndi gerast án þess að nokkur vissi um.
Doncic, til að mynda, hafði ekki hugmynd um viðræður þessara tveggja félaga, ef marka má færslu hans á Twitter til stuðningsfólks Mavericks. „Ég hélt að ég yrði allan minn feril hér, og ég vildi meira en nokkuð annað koma meistaratitli í höfn fyrir ykkur.“
Meira að segja LeBron James hjá Lakers hafði ekki hugmynd um það, hvað þá Dirk Nowitzki, fyrrverandi stjarna Mavericks, sem er innanbúðarmaður á þeim bæ.
Reyndar voru aðrir leikmenn í spilinu í þessum leikmannaskiptum, en þegar við erum að tala um tvo af bestu leikmönnum deildarinnar virðast þeir skipta litlu máli.
Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.