Meiðslin reyndust ekki smávægileg

Anthony Davis gengur meiddur af velli í leiknum gegn Houston …
Anthony Davis gengur meiddur af velli í leiknum gegn Houston um helgina. AFP/Tim Heitman

Útlit er fyrir að meiðslin sem Anthony Davis varð fyrir í leik Dallas Mavericks gegn Houston Rockets í NBA-deildinni í körfuknattleik um helgina séu alvarlegri en fyrst var talið.

Davis hefur heldur betur verið í fréttunum undanfarið eftir hin gríðarlega óvæntu leikmannaskipti milli Los Angeles Lakers og Dallas Mavericks voru opinberuð.

Luka Doncic fór þá  frá Dallas til Lakers og Davis kom til Texasliðsins í staðinn.

Leikurinn  gegn Houston var fyrsti leikur Davis með Dallas og hann fór vel af stað, skoraði 26 stig, tók 16 fráköst og átti 7 stoðsendingar í góðum sigri, 116:105.

En í þriðja leikhluta fór Davis af velli og kom ekki meira við sögu. Hann sagði eftir leikinn að um minniháttar meiðsli væri að ræða.

Nú er hins vegar komið á daginn að Davis er tognaður í nára og ESPN skýrir frá því að ljóst sé að hann  verði frá keppni í nokkrar vikur, væntanlega í heilan mánuð.

Mánuður er langur tími í NBA þar sem leikið er mjög þétt. Dallas er í áttunda sæti Vesturdeildar NBA og í harðri baráttu um að komast í hóp þeirra sex liða sem fara beint í úrslitakeppnina, sem og að forðast að detta niður í 11. sætið en þá kæmist liðið ekki í umspilið. Liðið hefur spilað 53 leiki af 82 á tímabilinu og mikilvægustu vikurnar eru framundan.

Næsta mánuðinn, til 10. mars, leikur Dallas þrettán leiki í deildinni og það yrði skarð fyrir skildi ef Davis myndi missa af þeim öllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert