Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik fær góða einkunn í uppgjöri á undankeppni EM 2025 sem Alþjóðakörfuknattleikssambandið, FIBA, birtir á heimasíðu sinni.
Ísland hafnaði í fjórða og síðasta sæti í F-riðli undankeppninnar eftir að hafa unnið einn af sex leikjum sínum.
Frammistaðan var hins vegar á löngum köflum góð og fær Ísland C+, sem jafngildir um 7,7 – 7,9, í einkunn hjá FIBA. Í umsögn um íslenska liðið segir:
„Þetta var kannski glatað tækifæri fyrir Ísland sem náði sigri gegn Rúmeníu og hefði kannski getað laumað inn einum sigri til viðbótar.
Sérstaklega með tilkomu skorvélarinnar Danielle Rodriguez sem var stórkostleg. Hefði hin magnaða Sara Rún Hinriksdóttir náð fleiri en tveimur leikjum hefði útkoman getað orðið betri.“