Valur bikarmeistari í fimmta sinn

Val­ur varð í dag bikar­meist­ari karla í körfuknatt­leik eft­ir sann­fær­andi sig­ur á grönn­um sín­um í KR 96:78 í úr­slita­leikn­um í Smár­an­um í Kópa­vogi. 

Ekki er erfitt að færa rök fyr­ir því að Vals­menn séu verðugir bikar­meist­ar­ar því þeir unnu mjög ör­ugga sigra bæði í úr­slita­leikn­um og undanúr­slita­leikn­um á móti Kefla­vík.

Vals­menn eru nú með bæði Íslands­bik­ar­inn og bik­ar­inn í sinni vörslu því liðið varð Íslands­meist­ari síðasta vor. 

Vals­menn taka syrp­ur þar sem þeir vinna bik­ar­keppni karla í körf­unni. Val­ur varð þríveg­is bikar­meist­ari karla á fjór­um árum fyr­ir fjór­um ára­tug­um síðan. 1980, 1981 og 1983. Val­ur er nú að taka aðra rispu því liðið hef­ur unnið bik­ar­inn tví­veg­is á síðustu þrem­ur árum. Alls eru sigr­arn­ir í bik­arn­um fimm tals­ins. 

Val­ur náði fljótt und­ir­tök­un­um í úr­slita­leikn­um í dag og komst í 12:4 í fyrsta leik­hluta. Að hon­um lokn­um var staðan 22:15. Þegar leið á ann­an leik­hlut­ann hitnuðu Vals­menn fyr­ir utan þriggja stiga lín­una og hristu þá KR-inga af sér. Að lokn­um fyrri hálfleik var staðan 49:29. 

Í síðari hálfleik reyndu KR-ing­ar hvað þeir gátu til að hleypa spennu í leik­inn. Þeir léku vel í þriðja leik­hlut­an­um og minnkuðu mun­inn niður í 11. stig en náðu aldrei að koma for­skoti Vals niður í eins stafs tölu. Þegar KR-ing­um tókst vel upp þá svöruðu Vals­menn með þriggja stiga körf­um. 

17 þrist­ar

Alls settu Vals­menn niður 17 þrista en ekki er ónýtt að ná slíkri hittni í úr­slita­leik. Þeir voru reynd­ar ekki sér­lega heit­ir í fyrsta leik­hlut­an­um en það átti eft­ir að breyt­ast all hressi­lega. Val­ur var með 50% skot­nýt­ingu fyr­ir utan þriggja stiga lín­una sem er frá­bært í bikar­úr­slita­leik þar sem spennu­stigið er hærra en í hefðbundn­um leikj­um. 

En gjarn­an er sagt að sterk vörn vinni bik­ara og það hef­ur sýnt sig hjá Val. Finn­ur Freyr Stef­áns­son hef­ur sett sam­an öfl­uga vörn og það sást vel í dag. KR-ing­ar þurftu að hafa mikið fyr­ir því að skapa sér góð skot­færi. 

Írinn Taiwo Badm­us var val­inn maður leiks­ins af KKÍ en hann skoraði 27 stig og tók 11 frá­köst fyr­ir Val. Val­ur er með mörg vopn í sókn­inni og marg­ir lögðu í púkkið. Fyr­ir vikið var nán­ast von­laust fyr­ir KR-inga að hemja Vals­menn. Kári Jóns stýr­ir sókn­ar­leikn­um og finn­ur besta val­kost­inn hverju sinni. Frank Aron Booker var drjúg­ur í leikn­um og landsliðsmenn­irn­ir Kristó­fer Acox og Krist­inn Páls­son tóku risp­ur við og við. 

Hjá KR var Lin­ards Jaunems stiga­hæst­ur með 25 stig. Hon­um gekk ágæt­lega að kom­ast í auðveld færi nærri körfu Vals en öfl­ug vörn Vals hélt flest­um öðrum leik­mönn­um KR niðri. Fyr­irliðinn Þórir Guðmund­ur Þor­bjarn­ar­son skoraði 14 stig, tók 10 frá­köst og gaf 5 stoðsend­ing­ar. Maður sá vel að Þórir var til­bú­inn til að draga vagn­inn í leikn­um og hafði kjarkinn til að fara fyr­ir sínu liðu. En hlut­irn­ir gengu ekki sér­lega vel upp hjá hon­um að þessu sinni þótt hann hafi skilað fínu fram­lagi. Hann var kald­ur fyr­ir utan þriggja stiga lín­una. 

Lið KR: Þor­vald­ur Orri Árna­son, Ni­mrod Hilli­ard, Þórir Guðmund­ur Þor­bjarn­ar­son fyr­irliði, Orri Hilm­ars­son, Veig­ar Áki Hlyns­son, Ja­son Gigliotti, Lin­ards Jaunzems, Vl­at­ko Granic. 

Lið Vals: Adam Ramstedt, Hjálm­ar Stef­áns­son, Taiwo Badm­us, Kristó­fer Acox fyr­irliði, Frank Aron Booker, Krist­inn Páls­son, Jos­hua Jef­fer­son, Kári Jóns­son. 

Lýs­ing upp­fær­ist sjálf­krafa

All­ar lýs­ing­ar í beinni

KR 78:96 Val­ur opna loka
mín.
40 Leik lokið
Valsmenn fagna sigri í bikarkeppninni.
37
Staðan er 91:65 fyrir Val. Hjálmar Stefáns fékk slink á hnéð og haltraði af velli. Spurning hvort þetta hafi einhver áhrif á framhaldið hjá honum. Þ.e.a.s úrslitakeppni Íslandsmótsins.
35
Staðan er 87:62 fyrir Val. Mikil stemning í Valsstúkunni.
33
Staðan er 78:60 fyrir Val. Leikhlé. KR mun ekki takast að hleypa spennu í leikinn úr þessu.
31 Fjórði leikhluti hafinn
30 Þriðja leikhluta lokið
Staðan er 70:53 fyrir Val fyrir síðasta leikhlutann. Allt útlit fyrir að fögnuðurinn í kvöld verði á Hlíðarenda. Þótt meiri spennu vanti í leikinn þá er frammistaða Vals eftirtektarverð. Virkilega gott lið sem spilar hörkuvörn og dritar niður þristum í sókninni.
30
Staðan er 66:53 fyrir Val. Stuðningsmenn KR geta alla vega ekki sakað sína menn um skort á baráttuþreki. Þeir reyna eins og þeir geta að saxa á forskotið áður en það verður of seint.
27
Staðan er 60:45 fyrir Val. KR-ingar hafa verið virkilega sprækir í þessum leikhluta en það dugir bara ekki til. Þeir minnkuðu muninn niður í 11 stig 54:43 en þá komu bara tveir þristar frá Kristni og Jefferson. Valsmenn eru miklu heitari fyrir utan þriggja stiga línuna. Eru með meira en 10 þrista nú þegar í leiknum. Ég minntist á að Þorvaldur hafi ekki skorað fyrir KR í fyrri en hann er kominn í gang og hefur skorað 7 stig í leikhlutanum.
25
Staðan er 54:38 fyrir Val. Frank Aron svaraði með því að setja niður erfitt þriggja stiga skot. Valsmenn eru of sigursælir og reyndir til að hleypa KR-ingum inn í leikinn held ég.
25
Staðan er 51:38. Tvö stig til viðbótar hjá KR og Finnur fær nóg og tekur leikhlé. KR-ingar tóku vel við sér á pöllunum og á varamannabekknum. 13 stiga munur. Þá eru úrslitin ekki ráðin. Sálræni þröskuldurinn getur gjarnan verið að mjaka muninum niður í eins stafs tölu. Ef það tekst þá geta KR-ingar kannski hleypt leiknum upp.
24
Staðan er 51:36 fyrir Val. KR-ingar hafa auðvitað ekki gefist upp en róðurinn verður þungur fyrir þá.
21 Síðari hálfleikur hafinn
20 Hálfleikur
Staðan er 49:29 fyrir Val að loknum fyrri hálfleik. Íslandsmeistararnir luku fyrri hálfleiknum með því að dæla niður þristum. Hafa auk þess haldið KR undir 30 stigum í fyrri hálfleik. Það er ekkert grín að eiga við þetta Valslið. Þorvaldur Orri var til að mynda stigahæstur hjá KR í undanúrslitaleiknum en hefur ekki skorað í fyrri hálfleik. Jaunzems er stigahæstur hjá KR með 11 stig. Hjá Val stefnir í stórleik hjá Badmus sem er með 15 stig.
19
Staðan er 43:24 fyrir Val. Frank Aron og Kristinn Páls leggja nú sín lóð á vogarskálarnar og Valsmenn eru að stinga af. Þetta er það sem maður óttaðist. Að leikurinn yrði ekki nægilega spennandi.
16
Staðan er 34:22 fyrir Val. Jakob tekur leikhlé. Valsmenn hafa fengið nokkrar auðveldar körfur og munurinn er orðinn tólf stig. KR-vörnin ræður einfaldlega ekki við öll þessi vopn sem Valur hefur. KR-ingar eiga mjög erfitt með að stöðva Badmus þegar hann kemst nærri körfunni en auk hans eru Kristófer, Kári og fleiri ógnandi.
14
Staðan er 28:19 fyrir Val. Þristur frá Kára. Annar þristurinn frá honum í leiknum. Skyldi hann hitna? Almennt séð hafa leikmenn hitta frekar illa eins og stundum vill gerast í úrslitaleikjum.
13
Staðan er 22:19 fyrir Val. KR-ingar hafa ekki misst Íslandsmeistarana frá sér. Dómararnir leyfa snertingar upp að vissu marki þegar menn keyra að körfunni. Það fer aðeins í taugarnar á leikmönnum í báðum liðum sýnist mér.
11 Annar leikhluti hafinn
10 Fyrsta leikhluta lokið
Staðan er 22:15 fyrir Val. Fyrir þá sem vilja fá spennandi úrslitaleik þá er þetta svolítið hættuleg staða. Valsmenn gætu tekið upp á því að stinga KR-ingana. Vörnin hjá Val er sterk og ekkert sem kemur á óvart þar. Jaunzems Linards nær þó reglulega að komast nálægt körfunni hjá Val þannig að hann fái auðveldar körfur.
5
Staðan er 4:12. Kári Jóns bætir við þristi fyrir Val og KR tekur leikhlé. KR-ingar eru með mun færri leikmenn sem hafa reynslu af leikjum sem þessum og þeir mega illa við því að missa Valsmenn fram úr sér í upphafi leiks.
5
Staðan er 9:4 fyrir Val. Írinn Taiwo Badmus byrjar afar vel hjá Val og hefur skorað 7 stig nú þegar.
2
Staðan er 2:2. Bæði lið komin á blað.
1
Fyrsta sókn beggja liða fór forgörðum án þess að ná skoti á körfuna. Dæmigert fyrir bikarúrslitaleik þar sem spennustigið er miklu hærra en í venjulegum leikjum.
1 Leikur hafinn
0
0
Valsmenn eru núverandi Íslandsmeistarar. Með sigri í dag verða báðir stóru bikararnir í karlaflokki í bikaraskápnum á Hlíðarenda.
0
Jakob Örn Sigurðarson stýrir KR. Hann getur unnið stóran bikar í fyrsta skipti sem þjálfari en hann varð landsmeistari bæði á Íslandi og í Svíþjóð sem leikmaður.
0
Rétt er að minna á tengingarnar á milli liðanna sem auka á spennuna í leik sem þessum. Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals gerði KR að Íslandsmeisturum fimm ár í röð. Í teymi Vals er einnig Finnur Atli Magnússon sem er uppalinn KR-ingur. Þá fór landsliðsmaðurinn Kristófer Acox úr KR í Val fyrir nokkrum árum sem vakti mikla athygli.
0
Nei nei þögnin er rofin Valsmegin í stúkunni. Um leið og bongótrommurnar byrjuðu þá lifnaði yfir þeim rauðu í stúkunni. Þetta verður ekki síður líflegt utan vallar en innan held ég.
0
Tveir af reyndustu dómurum landsins annast dómgæsluna, Sigmundur Már Herbertsson og Kristinn Óskarsson, ásamt Birgi Erni Hjörvarssyni. Eftirlit með þeim hefur Rúnar Birgir Gíslason en hann þeysist vanalega um alla Evrópu sem eftirlitsmaður fyrir FIBA Europe en virðist hafa gefið sér tíma fyrir bikarúrslitin.
0
Úrslit bikarkeppninnar hafa áður verið í Smáranum en Laugardalshöllin var lokuð um tíma vegna vatnsskemmda og ýmsu því tengdu. En hefðin er hins vegar sú að bikarúrslitin séu í Laugardalshöllinni.
0
Þið eruð fasteignafélag, syngja stuðningsmenn KR-inga en rígurinn á milli félaganna er meira en 100 ára gamall. Stundum getur verið grunnt á því góða en vonandi verður húmorinn í fyrirrúmi á pöllunum. KR-ingarnir eru löngu byrjaðir að syngja í stúkunni en Valsmenn virðast spara raddböndin fyrir átökin á eftir.
0
Löng biðröð var fyrir utan Smárann meira en hálftíma fyrir leik en uppselt var á leikinn í forsölu eftir því sem ég best veit. Flestir áhorfendur hafa nú komið sér fyrir í salnum þegar rúmar tuttugu mínútur eru í leik. Helmingur stúkunnar í svörtu og hvítu og hinn helmingurinn í rauðu. Stemningin ætti að verða ósvikin og vonandi fáum við spennandi úrslitaleik.
0
KR vann góðan sigur á Stjörnunni í undanúrslitum 94:91 eftir mikla spennu. KR sló einnig út Njarðvík og Hött á leið sinni í úrslitin.
0
Valur sló Keflavík út í undanúrslitum keppninnar af býsna miklu öryggi í vikunni 91:67. Fyrr í keppninni slógu Valsmenn út Hornfirðinga, Grindvíkinga og ÍR-inga.
0
Velkomin með mbl.is í Smárann þar sem KR og Valur mætast í úrslitaleik bikarkeppninnar í karlaflokki. KR-ingar leika til úrslita í 22. skipti, í fyrsta sinn í sjö ár, en þeir hafa unnið bikarinn oftast allra félaga, 12 sinnum, síðast 2017. Valsmenn leika til úrslita í níunda sinn en þeir hafa fjórum sinnum orðið bikarmeistarar, síðast 2023.
Sjá meira
Sjá allt
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Birgir Örn Hjörvarsson

Lýsandi: Kristján Jónsson

Völlur: Smárinn, Kópavogi

mbl.is

Körfubolti

Meira
L U T Mörk +/- Stig
1 Haukar 18 15 3 1585:1387 198 30
2 Njarðvík 18 13 5 1470:1384 86 26
3 Þór Ak. 18 12 6 1595:1501 94 24
4 Keflavík 18 12 6 1560:1467 93 24
5 Valur 18 8 10 1317:1343 -26 16
12.03 Valur : Njarðvík
12.03 Haukar 97:73 Þór Ak.
05.03 Njarðvík 105:96 Keflavík
05.03 Valur 77:98 Haukar
02.03 Keflavík 96:105 Haukar
02.03 Þór Ak. 84:73 Valur
26.02 Njarðvík 93:80 Þór Ak.
26.02 Keflavík 73:77 Valur
26.03 19:15 Haukar : Njarðvík
26.03 19:15 Þór Ak. : Keflavík
urslit.net
Fleira áhugavert

Körfubolti

Meira
L U T Mörk +/- Stig
1 Haukar 18 15 3 1585:1387 198 30
2 Njarðvík 18 13 5 1470:1384 86 26
3 Þór Ak. 18 12 6 1595:1501 94 24
4 Keflavík 18 12 6 1560:1467 93 24
5 Valur 18 8 10 1317:1343 -26 16
12.03 Valur : Njarðvík
12.03 Haukar 97:73 Þór Ak.
05.03 Njarðvík 105:96 Keflavík
05.03 Valur 77:98 Haukar
02.03 Keflavík 96:105 Haukar
02.03 Þór Ak. 84:73 Valur
26.02 Njarðvík 93:80 Þór Ak.
26.02 Keflavík 73:77 Valur
26.03 19:15 Haukar : Njarðvík
26.03 19:15 Þór Ak. : Keflavík
urslit.net
Fleira áhugavert