„Við erum að smella vel saman á hárréttum tíma,“ segir Kristófer Acox fyrirliði bikarmeistara Vals í körfuknattleik.
Blaðamaður hefur orð á því að Valsmenn vinna afar sannfærandi sigra bæði í úrslitaleik og undanúrslitaleik keppninnar. 96:78 gegn KR í úrslitaleiknum í dag og 91:67 gegn Keflavík í undanúrslitunum í Smáranum í vikunni.
„Við höfum unnið leiki í deildinni þar sem við okkur fannst við samt ekki spila af eðlilegri getu. Við unnum leiki þar sem við vorum ósáttir við frammistöðuna. En okkur tókst að finna taktinn og í svona mikilvægum leikjum finna menn oft einhvern auka gír og auka orku. Við höfum spilað mikilvæga leiki síðustu ár og kunnum það vel. Eins og staðan er núna er liðið á mjög fínum stað,“ segir Kristófer sem skoraði 10 stig, tók 4 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í úrslitaleiknum gegn uppeldisfélaginu.
Ungur stuðningsmaður heldur betur ánægður með gang mála.
mbl.is/Ólafur Árdal
Hann tekur fram að reyndir og sigursælir leikmenn Vals verði þó stressaðir fyrir úrslitaleiki eins og aðrir.
„Við erum mennskir eins og aðrir. Maður finnur fyrir fiðrildinu í maganum og stressinu sem tekur við þegar komið er í leikinn. En þá kemur reynslan til góða og manni tekst að róa sig. Við erum einnig duglegir að minna hverja aðra á hvað skiptir máli á mikilvægum augnablikum. Samheldnin er alltaf góð og menn eru alltaf að hugsa um næsta mann í liðinu. Samheldnin hefur skilað okkur þessum titlum síðustu ár,“ sagði Kristófer Acox við mbl.is í Smáranum í kvöld.