„Þetta er léttir, miðað við hvernig staðan var orðin. Þetta hafðist á síðustu sekúndunum. Þetta var ótrúlegur leikur,“ sagði Dagur Sigurðsson þjálfari karlaliðs Króatíu í handbolta í samtali við mbl.is eftir 30:29-sigur á Japan í 1. umferð A-riðils Ólympíuleikanna í París.
Króatíska liðið var mikið mun sigurstranglegra fyrir leik, en lenti í vandræðum með sprækt japanskt lið. Japan var 4-5 mörkum yfir undir lok fyrri hálfleiks og framan af þeim seinni.
„Það var einhver stórmótaskjálfti í þeim sem við þurfum að ná að hrista af okkur,“ sagði Dagur.
Staðan var 29:29 þegar mínúta var eftir og Japan með boltann. Japönum mistókst að skora sigurmarkið og hinum megin var Ivan Martinovic hetja króatíska liðsins.
„Þeir fá í rauninni tvo sénsa til að vinna þetta. Stundum dettur þetta aðeins með manni. Allt í allt þá átti Japan meira skilið. Ég get verið stoltur af báðum liðum,“ sagði hann.
Dagur stýrði japanska liðinu frá 2017 og þar til í febrúar á þessu ári. Fáir þekkja því japanskan handbolta eins vel og fyrrverandi landsliðsfyrirliðinn.
„Það skiptir máli hvað ég þekki þá vel, en það virðist ekki hafa skilað sér,“ sagði Dagur kíminn.