„Við horfum jákvæðum augum til úrslitanna. Það eru hörku flottir krakkar í liðinu. Þau eru dugleg að æfa sig og það er mikil stemmning í bænum fyrir keppninni,“ segir Ása Fönn Friðbjarnardóttir, íþróttakennari Dalvíkurskóla.
Lið hennar bar sigur úr býtum í Norðurlandsriðli og er í úrslitum Skólahreysti í fyrsta sinn.
„Markmiðið er auðvitað í allri keppni að sigra. En við erum jarðbundin og vitum að það er sennilega ekki möguleiki. Alla vega ætlum við bara að gera okkar besta og reyna vinna einhverja skóla, það er markmiðið, að vera yfir meðaltalinu.
Við höfum ekki undirbúið okkur neitt sérstaklega, krakkarnir eru allir í íþróttum og alhliða sterk. Við erum með skólahreysti sem valgrein í skólanum og tveir keppendanna eru í því.
Liðið skipa sterkur sveitastrákur, léttur og sterkur fótboltastrákur, frjálsíþróttastúlka og hestamanneskja, sem fæst m.a. við tamningar. Hún er mjög góð í að hanga og ætli það megi ekki rekja til þess að hún er alltaf að halda í tauminn,“ segir Ása Fönn.
Stemmningin fyrir Skólahreysti er mjög mikil, bæði í skólanum og Dalvíkurbæ. Nemendur 9. og 10. bekkjar munu fylgja liðinu suður til Reykjavíkur til úrslitakeppninnar á rútu.
„Sá undirbúningur hefur verið á fullu og fyrirtæki og stofnanir hafa verið hjálpleg við að hlaupa undir bagga með okkur vegna kostnaðar. Það er búið að fjármagna rútukostnaðinn, við gistum frítt í félagsmiðstöð syðra og svo hefur fyrirtæki gefið boli á allan mannskapinn, liðsmenn og stuðningshópinn,“ segir Ása Fönn.
Hún tekur undir með öðrum og segir Skólahreysti frábært framtak. Athyglisvert sé hversu margir krakkar hafa gaman af keppninni. „Allt oní tíu ára krakkar eru að fikta og fikra sig áfram. Áhrifin eru mjög jákvæð. Og það góða við keppnina að það er allt liðið sem er að keppa. Það er ónóg að hafa einn góðan, það dugar ekki, heldur eru allir með og þeir þurfa ekki að vera neinir toppmenn til að eiga góða möguleika,“ segir Ása Fönn að lokum.