Þjóðmálin
8. apríl 2025
„Við þurfum að vakna,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum og þar með yfirmaður landamæraeftirlits á Keflavíkurflugvelli ásamt tollinum. Úlfar segist ekki bara geta sent minnisblöð um ástandið. Hann segist þurfa um hálfan milljarð króna í viðbótarfjárframlög til að hægt sé að sinna eftirliti á landamærunum sómasamlega. Hann kallar eftir tíu til fjórtán fangavörðum og stuðningi ríkisstjórnar, þings og þjóðar. Erlendar glæpaklíkur hafa náð fótfestu á Íslandi og segir Úlfar að þessar klíkur sæki á lögregluembættið á Suðurnesjum með aðstoð íslenskra lögmanna. Hann er þeirrar skoðunar að við getum enn snúið stöðunni á þessu sviði okkur í hag. Hann bendir jafnframt á að það sé engin skylda af hálfu Íslands að vista hér á landi erlenda ríkisborgara sem hafi gerst brotlegir við lög.
Það sé ekki hluti af samningum við Evrópusambandið. Enn eru nokkur flugfélög sem fljúga til Íslands sem ekki veita upplýsingar um farþega samkvæmt alþjóðareglum. Þessi ótrúlega staða hefur verið til umfjöllunar mánuðum saman eftir að Úlfar vakti fyrst athygli á þessu í viðtali við Morgunblaðið. Hann vonast til að þessari smugu verði lokað síðar á árinu. Hann bendir hins vegar á að tollayfirvöld hafi möguleika á að knýja á um að þessi flugfélög skili upplýsingum á tilsettum tíma. Þeim úrræðum hefur ekki verið beitt. Boltinn er hjá stjórnvöldum. Úlfar hvetur stjórnmálamenn til að hlusta á hvað embættismenn sem eru í framlínunni hafa að segja. Hann kallar eftir breytingum á útlendingalögum og að aukin úrræði verði jafnframt sett beint inn í landamæralög.