Sala á tölvum í Bandaríkjunum hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum. Samhliða aukinni sölu rauk verð hlutabréfa í tæknifyrirtækjum upp. Í ár er því hins vegar spáð, að sögn Más Wolfgangs Mixa, að sala á tölvum muni dragast saman og er útlit fyrir að verð hlutabréfa í tæknifyrirtækjum muni einnig lækka.
MEGINÁSTÆÐA þeirrar miklu framleiðniaukningar sem skapaðist í Bandaríkjunum og víða annarsstaðar á þessum áratugi er rakin til þeirrar auknu hagræðingar sem tölvunotkun leiddi af sér. Á þessu tímabili hefur sala á tölvum verið gríðarleg. Hlutfall kaupa fyrirtækja á tölvum og tengdum vörum á sl. ári var orðið um 40% af öllum fjárfestingum þeirra, sem er um tvöfalt hærra hlutfall en það var í byrjun áratugarins. Á sama tíma meira en fjórfaldaðist árleg sala á tölvum í heiminum. Árið 1990 áttu um 15% allra bandarískra heimila tölvur, en nú er ein eða fleiri tölvur á öðru hverju heimili þar. Um tíma jókst sala á milli ára yfir 30%. Stöðugar framfarir urðu til þess að flestir kaupendur voru tilbúnir að kaupa tiltölulega dýrar gerðir af tölvum til þess að þær yrðu ekki strax úreltar. Síðastliðin 2-3 ár hefur byltingin í notkun veraldarvefsins t.d. aukið þessar kröfur og ýtt undir marga að fjárfesta í tölvu. Samhliða þessari þróun gátu tölvuframleiðendur lagt töluvert á framleiðslu sína. Verð hlutabréfa tölvuframleiðenda ruku upp á þessu tímabili, enda voru fyrirtækin í miklum vexti og veittu mikinn hagnað.
Samdráttur í einingum, verðum og notkun
Nú er öldin hinsvegar önnur. Stórar breytingar eru skyndilega að eiga sér stað í þessum efnum. Gert er ráð fyrir að aukning á fjölda seldra tölva verði um 14% í ár en hún var 19% í fyrra og 20% árið áður. Meira áhyggjuefni fyrir tölvuframleiðendur ætti hinsvegar að vera að þörfin á að fá það nýjasta og besta á markaðinum fer nú stöðugt minnkandi. Munurinn á t.d. 300 og 400 megariða örgjörva er sáralítill fyrir flesta notendur. Þetta hefur þau áhrif að ódýrar tölvur eru að verða sífellt vinsælli. Meðalverð á tölvu í Bandaríkjunum var 2.100 dollarar fyrir tveimur árum síðan, nú er það 1.200 dollarar. Fyrir hálfu ári síðan var markaðshlutdeild tölva ódýrari en 600 dollara um 5%. Búist er við að sú hlutdeild verði orðin 25% í lok þessa árs. Eitt fyrirtæki hefur náð að nýta sér þessa þróun til hins ýtrasta. Emachines (hefur einhver heyrt um það?), sem selur einungis ódýrar tölvur, framleiðir nú orðið um 10% allra seldra tölva í Bandaríkjunum, sem er svipaður fjöldi og IBM! Staðreyndin er sú að jafnvel ódýrar tölvur fullnægja þörfum flestra í dag, jafnvel í tengslum við veraldarvefinn. Aðeins 5% tölva sem almenningur í Bandaríkjunum kaupir í dag kosta yfir 1,500 dollara. Það sem meira er, aðgangur fólks að veraldarvefnum á eftir að aukast meira með hjálp annarra tækja en tölva, t.d. smátölva, farsíma og veraldarvefssíma. Franski símtækjarisinn Alcatel gerði nýlega könnun á því hvers konar tækjum fólk hefði mestan áhuga á. Niðurstaðan var ákveðinn sími sem veitir aðgang að veraldarvefnum með snertiskjá. Auk þess er talhólf í símanum, hægt er að senda tölvupóst úr honum sem og að senda fax. Síminn fer á markaðinn í haust og gerir Alcatel ráð fyrir að selja 1,5 milljón eintök fyrstu þrjú árin. Þar sem hægt verður að tengjast veraldarvefnum án tölva í sífellt auknari mæli fer þörf almennings á að eiga hraðasta örgjörvann sem fáanlegur er dvínandi. Það eru jú takmörk fyrir því hversu fljótt mannsheilinn getur unnið við gerð töflureikna eða greinar sem þessarar.
Ein fyrir hvern starfsmann
Um 70% allra seldra tölva eru til fyrirtækja. Nú er svo komið að í mörgum fyrirtækjum er þegar komin ein tölva fyrir hvern starfsmann. Mörg fyrirtæki hafa verið að uppfæra kerfi sín til að forðast 2000 vandann og/eða til að hægt verði að tengjast veraldarvefnum. Minnkandi þörf fyrir endurbætur verður væntanlega til þess að hlutfall fjárfestinga fyrirtækja í tölvum fer aftur minnkandi, jafnvel snarlega. Þessi staðreynd hefur ekki farið framhjá hlutabréfamörkuðum. Verð hlutabréfa í helstu heildsölum á tölvum í Bandaríkjunum hefur snarfallið í ár. Er meðal v/h (verð/hagnaður) hlutfallið í þeim geira komið niður fyrir 14.
Hagnaður fer norður og niður
Almennt eru v/h hlutföll hlutabréfa í tæknifyrirtækjum há miðað við markaðinn almennt. V/h hlutföll tölvuframleiðenda eru hinsvegar ekki það há miðað við markaðinn almennt. Reyndar er það svipað hjá flestum stærstu fyrirtækjunum í geiranum miðað við spár ársins (að Dell undanskildu sem á meiri vöxt inni vegna mikillar sölu á veraldarvefnum) og meðaltalsspáin í Dow Jones hlutabréfavísitölunni. Með minni vöxt í sjónmáli í geiranum þýðir það hinsvegar að ef fyrirtæki ætlar að vaxa, þá verður það á kostnað keppinautarins. Og það þýðir verðstríð sem leiðir til snarminnkandi hagnaðar. Fyrstu áþreifanlegu merkin komu fram fyrir tveimur vikum þegar Compaq tilkynnti afkomuviðvörun. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að hagnaður fyrsta ársfjórðunginn verði tæplega helmingurinn af því sem meðaltalsspár gerðu ráð fyrir. Helstu skýringar á minni hagnaði voru að eftirspurn eftir tölvum var á undanhaldi, og þá aðallega dýrari gerðum tölva sem veita hlutfallslega mestan hagnað. Í dag er markaðsvirði fyrirtækisins tæplega helmingur af því sem það var í lok janúar.
Framtíðin
Eru hlutabréf í öllum tölvufyrirtækjum í þann veginn að falla í verði? Þau fyrirtæki sem ná fyrst að bregðast við nýjum aðstæðum þar sem upplýsingastreymi skiptir mestu máli eiga bjarta framtíð framundan. Þróunin er hraðari en tölvuframleiðendur virðast hafa reiknað með. Þau tölvufyrirtæki sem eiga erfitt með að aðlagast nýjum aðstæðum verða risar gærdagsins.
Höfundur er sérfræðingur á viðskiptastofu Sparisjóðs Hafnarfjarðar.